154. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2024.

skýrsla um Hvassahraunsflugvöll.

[15:47]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og tækifærið til að ræða það sem við erum reyndar báðir sammála um; mikilvægi Reykjavíkurflugvallar sem miðstöðvar innanlandsflugsins, hjartað í sjúkrafluginu og auðvitað líka til vara sem alþjóðlegur flugvöllur. Á meðan ekki einhver annar jafn góður eða betri flugvöllur finnst á sama svæði þá er mikilvægt að tryggja rekstraröryggi og öryggi flugvallarins og rekstrarhæfi flugvallarins í Reykjavík. Þess vegna var náttúrlega þessi Hvassahraunsskoðun sett af stað og það er rétt að hún hefur dregist allnokkuð. Staðan núna er þó sú að þar sem þetta var fjölþætt verkefni þá eru allar undirskýrslur á lokametrunum. Það er verið að vinna í því að draga saman svokallaða heildarskýrslu þessa Hvassahraunshóps, samlestur stýrihóps á niðurstöðum undirhópa er í gangi, úrvinnsla, uppsetning, textavinnsla, yfirlestur fram undan, og nú ætla ég að segja væntanlega á næstu vikum eða mánuðum af því að ég hef nokkrum sinnum haldið því fram og mér verið sagt að þetta sé að koma. En þetta er alla vega komið í þennan síðasta fasa og ég get verið sammála hv. þingmanni að það kannski skiptir ekki öllu máli.

Varðandi síðan af hverju þetta hefur verið svona þá tafði Covid fyrir að verkefnið kæmist af stað. Úrvinnsla mælinganna hefur reynst tímafrekari og flóknari heldur en áætlað var og jarðhræringarnar á Reykjanesskaga hafa auðvitað lækkað forgang þessarar vinnu. Þetta er oft sama fólkið sem er að vinna hluta af þessum verkefnum og þannig hafa önnur verkefni gengið fyrir.

Varðandi frekari uppbyggingu í kringum Reykjavíkurflugvöll þá verð ég að fá að koma að því í seinna andsvari svo ég fari ekki yfir tímamörk forseta.