154. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2024.

Fíknisjúkdómurinn.

[15:59]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir að taka þessa umræðu upp sem hv. þingmaður gerir reyndar reglubundið og er það vel. Ég veit að margir hv. þingmenn sem munu taka þátt í þessari umræðu gera það jafnframt og það er mikilvægt að við höldum áfram að taka þessa umræðu og það er þakkarvert út af fyrir sig. Það er líka hluti af því að færa umræðuna á þann stað að vera sem opnust og mest laus við fordóma. Slík umræða er hluti af því að draga úr jaðarsetningu, sem gjarnan fylgir þessum flókna sjúkdómi, þeirra sem kljást við fíknivanda og þetta færir okkur nær umbótum í þessu. Þetta er stöðug vinna, þetta er stöðugt verkefni og kallar á stöðugar úrbætur og stöðuga úrbótahugsun.

Hv. þingmaður spurði hvort það mætti búast við raunverulegum aðgerðum, hvaða forvarnir ef einhverjar væru í boði og hvort heilbrigðisráðherra hefði gripið til einhverra aðgerða. Einfalda svarið við þessu þrennu er já og ég ætla að koma inn á það í mínu máli. Síðan er það þessi fjórða áhersla sem snýr að úrræðum sem standa til boða frá heilbrigðiskerfinu eftir að hafa lokið meðferð. Það dregur svolítið fram þessa samþættingu sem við kannski þurfum að auka hér í þessu viðfangsefni vegna þess að flest þau úrræði sem standa til boða eftir meðferð eru á hendi sveitarfélaga, en þau eru þó líka á hendi heilbrigðiskerfisins.

Þá fyrst að því hvort heilbrigðisráðherra telji að þessi fíknisjúkdómur sé viðurkenndur sem sjúkdómur sem skilyrðislaust skuli heyra undir íslenska heilbrigðiskerfið. Einfalda svarið við þessu er að sjálfsögðu já. Hér fylgjum við flokkunarkerfi sjúkdóma en þannig er að notkun hvers kyns vímugjafa — og af því að það kom fram í máli hv. þingmanns að þetta væri mjög alvarleg þróun varðandi þessi ópíóíða- og morfínskyldu lyf þá er það rétt hjá hv. þingmanni. En við megum ekki gleyma því að baráttunni við áfengi er ekki lokið. Áfengi og afleiðingar af áfengisneyslu er enn þá langstærsta viðfangsefnið ef við horfum þannig á samhengi hlutanna. En þetta er að aukast og þetta er snúið mál. Fíkn má skilgreina sem líffræði-, félags- og sálfélagslegan sjúkdóm samkvæmt þessu flokkunarkerfi og slíkur sjúkdómur getur verið langvarandi, krónískur og hann þróast fyrir tilstilli mjög flókins og stöðugs samspils erfða, taugakerfis, sálrænna þátta sem og atferlis- og umhverfisþátta, þannig að þetta er mjög flókið verkefni. Þetta er flókinn sjúkdómur. Fíknisjúkdóma þarf að nálgast eins og aðra langvinna sjúkdóma með gagnreyndri þekkingu og viðurkenndum meðferðum. Þeir eru á breiðu sviði og kalla á fjölþætta nálgun, úrræði og meðferðir. Ég var nú síðast á ráðstefnu í morgun, þar sem var þéttsetið, um forvarnir og íslenska unglingamódelið og hvernig við höfum náð árangri í að draga úr neyslu unglinga, ungmenna, áfengisneyslu og tóbaksneyslu. Þetta eru raunverulega sömu lögmálin sem gilda þegar kemur að forvörnum. Það er nauðsynlegt að vinna samhliða forvörnum, snemmtækum inngripum, greiningu, meðferð, endurhæfingu og bata og það með tilliti til allra fíknisjúkdóma.

Ég svara því játandi sem hv. þingmaður kemur hér inn á með heilbrigðiskerfið. Já, auðvitað á heilbrigðiskerfið að vera í leiðandi hlutverki í málaflokknum. Hins vegar er aðkoma annarra og samþætting við önnur kerfi líka mjög mikilvæg og þar finnst mér kannski að við höfum ekki gert nægilega vel, kerfi félagsmála, menntamála, dómsmála, þar þurfum við að ná fram miklu meiri samþættingu fyrir notendur og aðstandendur þeirra. Það mun skila sér fyrir samfélagið í heild en klárlega þarf forystan að vera í heilbrigðisráðuneytinu. (Forseti hringir.) — Tíminn líður allt of hratt í þessari mikilvægu umræðu, hæstv. forseti.