154. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2024.

Fíknisjúkdómurinn.

[16:12]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda og hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þessa umræðu hér í dag. Við höfum í auknum mæli rætt um fíkn og fíknisjúkdóma hér á þinginu síðustu ár. Það er jákvætt enda hefur mikil vitundarvakning átt sér stað um ömurlega stöðu þeirra sem berjast við þennan, ja, ég vil segja lævísa, hvikula og öfluga andstæðing. Það ber á ýmsum ólíkum viðhorfum í þessari umræðu eins og hefur komið fram hér bæði í dag og áður. Ég er þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að bjóða upp á ólíka meðferðarkosti og þjónustu við fólk sem glímir við fíknisjúkdóma. Það liggur í augum uppi að þarfir fólks eru ólíkar; ekki vilja öll fara í meðferð, ekki eru öll tilbúin að hætta neyslu þá og þegar þrátt fyrir að upplifa algjöran vanmátt gagnvart ástandi sínu, sama hversu mikið er í húfi. Þetta eru fótspor sem erfitt er að setja sig í en afar mikilvægt að við þjónustum þennan hóp til jafns við aðra.

Hér á landi hefur skaðaminnkandi úrræðum fjölgað sem betur fer. Ber þar hæst Frú Ragnheiði sem veitir lágþröskuldaþjónustu fyrir fólk sem notar vímuefni um æð. Meðal annarra orða þá komast þau að sem þess óska og geta fengið hreinan búnað með það að markmiði að fyrirbyggja þann skaða og þá áhættu sem hlýst af notkun vímuefna. Liður í því er að dreifa lyfinu naloxone sem er notað þegar þörf er á tafarlausri neyðarmeðferð vegna ofneyslu ópíóíða.

Hæstv. forseti. Vandinn er grafalvarlegur og þess eðlis að samhliða fleiri úrræðum sem veita þjónustu við fólk með fíknisjúkdóma þurfum við að horfa á vandann heildstætt eins og ráðherra nefndi. Það liggur fyrir að þau sem búa við fátækt, fólk sem elst upp á jaðri samfélagsins vegna ýmissa félagslegra breytna er líklegra til að þróa með sér fíknisjúkdóma. Félags- og efnahagslegt réttlæti er því meðal þeirra þátta sem við þurfum að ráðast á þegar við horfum heildstætt á vandann og til þess að takast á við hann þarf fjöldi aðila að koma saman. Það er engin ein lausn. Við þurfum gagnreyndar aðferðir til að hjálpa fólki sem vill losna undan fíkninni. Við þurfum að tryggja eftirfylgni sjúklinga því að áhrifin á notendur eru oft langvarandi. Þau eru flókin og snerta bæði andlega og líkamlega heilsu. Og ég tek undir með hæstv. heilbrigðisráðherra: Við þurfum að samþætta þessa þjónustu við fólk með fíknisjúkdóma og taka utan um alvarleika málsins. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)