154. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2024.

Fíknisjúkdómurinn.

[16:19]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. málshefjanda, Ingu Sæland, fyrir frumkvæðið að þessari umræðu. Það er mikilvægt að við eigum öfluga talsmenn hér á þingi fyrir úrbótum í þjónustu við þá sem þjást af fíknisjúkdómum. Í mínum huga er ekki vafi á að fíknisjúkdómurinn er viðurkenndur sem heilbrigðisvandi á Íslandi. Hins vegar hefur eins lengi og ég man staðið yfir leit að góðum, viðurkenndum gagnreyndum meðferðarleiðum enda þarfir fíknisjúklinga breytilegar, bæði milli einstaklinga sem glíma við svipaða fíkn og eftir því hvers konar fíkn glímt er við. Stjórnvöld hafa á hverjum tíma gert samninga við samtök um meðferð við sjúkdómnum til viðbótar við ýmsa þjónustu opinberu heilbrigðisstofnananna.

Virðulegi forseti. Á hverjum tíma þarf að sinna heildstæðum forvörnum, veita heildstæða meðferð og sinna bráðaþjónustu. Í því ljósi fagna ég því að heilbrigðisráðherra hefur skipað starfshóp til að endurskoða heildarstefnu í áfengis- og vímuvörnum, stefnu sem á að taka til forvarna, meðferðar og eftirfylgni, endurhæfingar og lagaumhverfis og taka mið af þörfum ólíkra hópa. Einnig er unnið að stefnumótun á sviði skaðaminnkunar og við eigum nýja aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til ársins 2030. Mikilvægt er að þessar aðgerðir myndi skýran og skilvirkan ramma um verkefni sem við verðum að leysa.

Virðulegi forseti. Að lokum langar mig að nefna mikilvægi góðra samtímaupplýsinga, bæði varðandi þarfir fyrir meðferð og hver bráðavandinn er hverju sinni. Þeim upplýsingum þarf að safna frá þeim sem eru á bráðavaktinni, svo sem sjúkraflutningafólki, bráðadeild og lögreglu, en einnig mögulega með greiningu efna í umferð. Landlæknir hefur kynnt slíkar hugmyndir undir vinnuheitinu Fíknivaktin.