154. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2024.

Fíknisjúkdómurinn.

[16:30]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Það er auðvitað hægt að halda talsvert langar ræður um þennan sjúkdóm en tíminn sem maður hefur er takmarkaður og það eru nokkur atriði sem mig langar að koma inn á í minni seinni ræðu. Fyrir það fyrsta: Þessi sjúkdómur er alveg óskaplega dýr fyrir samfélagið. Við sjáum afleiðingar og kostnað víða annars staðar í heilbrigðiskerfinu vegna þessa sjúkdóms. Við sjáum þennan kostnað hellast yfir löggæslukerfin okkar, fangelsin, félagsþjónustuna, inn í sveitarfélögin, félagsleg úrræði þar. Kostnaðurinn vegna fíknisjúkdóma hríslast niður allar taugar samfélagslíkamans og þetta er eitthvað sem við verðum að hafa í huga þegar við erum að meta hvernig best sé að bregðast við. Við fáum til baka þann pening að einhverju leyti sem við setjum í það að bregðast við þessum vanda.

Það er stundum ákveðinn misskilningur gagnvart þessum sjúkdómi úti í samfélaginu og til að mynda er stundum býsnast yfir því að fólk þurfi ítrekað að leita sér hjálpar. Við tölum aldrei svona um krabbameinssjúklinginn eða þann sem hjartveikur er. Við segjum aldrei við krabbameinssjúklinginn að það sé eitthvað skrýtið að hann þurfi kannski að fara oftar en einu sinni og oftar en tvisvar í viðhlítandi meðferð eða það sama gagnvart þeim sem hjartveikur er. En þannig er það með fíknisjúkdóminn; þetta er krónískur vandi, geðrænn vandi sem getur tekið sig upp aftur, og heilbrigðiskerfið okkar á ekki að loka augunum fyrir þeirri staðreynd. Úrræðin þurfa að vera fjölbreytt og þau þurfa að ganga út frá þeirri staðreynd að við verðum að mæta fólkinu þegar það er tilbúið til þess. Við verðum að mæta vandanum á forsendum vandans en ekki á forsendum kerfisins. Það er nefnilega rétt sem hér hefur verið bent á að stundum getur meðferðarglugginn eða viljinn til þess að fá hjálp verið bara einhverjar fáeinar vikur og þá er mögulegt að grípa einstaklinginn en segja ekki: Heyrðu, þú getur komið eftir sex mánuði, þá færðu pláss. Þá færðu heilbrigðisþjónustuna sem þú átt rétt á samkvæmt íslenskum lögum og stjórnarskrá.

Ef við myndum standa okkur jafn illa gagnvart krabbameini og hjartveikum og við gerum gagnvart fíknisjúkdómum (Forseti hringir.) — íslenskt samfélag myndi aldrei nokkurn tíma sætta sig við það. Við gerum margt vel en við þurfum að gera miklu betur.