154. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2024.

Fíknisjúkdómurinn.

[16:35]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessa umræðu og þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir að hefja þessa umræðu hér sem er mjög hvetjandi, ég skal viðurkenna það. Við getum alltaf deilt um það hvort nóg sé að gert og þetta er stöðugt verkefni eins og ég kom inn á í fyrri ræðu. Nú fer fram umfangsmikil stefnumörkun þar sem mjög stór hópur haghafa fer yfir stöðuna, hvernig við getum aukið aðgengi að meðferðarúrræðum, sett aukinn kraft í forvarnir og snemmtæk inngrip. Það er líka að finna í annarri stefnumótun, eins og lýðheilsustefnu og geðheilbrigðisstefnu. Við höfum aukið stórkostlega aðgengi að naloxone sem getur bjargað mannslífum. Það er líka mjög mikilvægt þetta sem kom fram í umræðunni um rauntímagögn, um upplýsingaöflun, nýtingu gagna, aukna áherslu á skaðaminnkun og það er sérstakur hópur að vinna að skaðaminnkun og búinn að vera í nokkurn tíma. Þar skiptir máli að rýna hvað er gert annars staðar og horfa til gagnrýndra aðferða.

Ég vil líka kalla eftir stuðningi þingheims og þingmanna og þingflokka í að skipa rýnihóp, mun kalla eftir tilnefningum þar að lútandi, þannig að við förum í eitt skipti fyrir öll sameiginlega í þetta og reynum að setja þunga í þetta verkefni okkar. Ég hef líka sett af stað viðbrögð við ópíóíðafaraldri. Frá því í maí á síðastliðnu ári fóru 150 milljónir til viðbótar við það sem fer í málaflokkinn sérstaklega í það verkefni. Þar erum við búin að semja við rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræðum og við höfum farið í nokkur lágþröskuldaúrræði. (Forseti hringir.) Við erum líka að reyna að fjölga meðferðarúrræðum á þeim stöðum sem við erum með samninga við; SÁÁ, Hlaðgerðarkot, Krýsuvík. Þannig að það er fjölmargt í gangi. (Forseti hringir.) Ég ætla að ljúka ræðu minni, hæstv. forseti, á því að biðja hv. þingmenn að taka vel í það þegar við köllum eftir (Forseti hringir.) tilnefningum í þennan rýnihóp.