154. löggjafarþing — 84. fundur,  11. mars 2024.

gervigreind.

654. mál
[16:51]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir þetta umræðuefni, hér er um gríðarlega mikilvægt umræðuefni að ræða. Ég tel að það megi hagnýta gervigreind í lögbundnum verkefnum í heilbrigðisþjónustu, það er ekki spurning. Þar kemur fyrst og fremst inn túlkun mynda, röntgen- og sneiðmynda t.d., einnig sjúkdómsgreiningar og þá sérstaklega varðandi sjaldgæfa sjúkdóma sem læknar oft missa af og svo í þriðja lagi er það forspá eða „prognosis“, t.d. um dementíu, krabba og heilablóðfall. En ég get ekki séð annað en að við þurfum að fylgja alþjóðlegri þróun hvað þetta varðar. Við erum svo heppin að eiga lækna sem eru bæði menntaðir í Evrópu og í Bandaríkjunum og við eigum að geta verið í fremstu röð við að tileinka okkur tæknina sem er að koma hraðar en við gerum okkur grein fyrir. Ég tel að þessi þróun sem ég var tala um, í forspá, sjúkdómsgreiningu og túlkun mynda, sé gríðarlega mikilvæg. En ég vil jafnframt minna á það að við höfum ekki náð að fylgja þróun í fjarheilbrigðisþjónustu í sama mæli (Forseti hringir.) og er gert t.d. í Norður-Noregi þannig að við þurfum líka að huga að tækninni á öðrum sviðum.