154. löggjafarþing — 84. fundur,  11. mars 2024.

gervigreind.

654. mál
[16:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Forseti. Gervigreindin kemur kannski á tvennan hátt inn í þennan málaflokk. Það er náttúrlega sem aðstoðartæki í læknavísindunum sjálfum og það á kannski síður við einmitt þessa fyrirspurn nema bara sem hvatning til ráðherra til að hjálpa til við að tækniframfarir séu innleiddar þar, en ekki síður á hún heima í stjórnsýslunni, í stjórnsýslu ráðherra og stofnana, þetta aðstoðartæki sem gervigreindin getur verið. En þá finnst mér vanta svona nýsköpunarteymi, mér finnst vanta nýsköpunarhugsun í opinberri stjórnsýslu þar sem það er einfaldlega bara farið og byrjað í staðinn fyrir að setja af stað starfshópa hingað og þangað til að koma með einhverjar hugmyndir sem gerast hálfu ári, tveimur árum seinna. Það væri bara teymi sem byrjaði strax að safna að sér tækifærum: Hvar er hægt að nýta þetta í núverandi fyrirkomulagi? Byrjum á að prófa það, hvernig við getum nýtt þetta á þeim vettvangi sem við erum með núna til þess kannski að endurskipuleggja eða gera eitthvað betra. Okkur vantar að fá það svona í fingurgómana hvernig breytingarnar munu hafa áhrif á núverandi fyrirkomulag. Mér finnst stjórnsýslan oft vera allt of sein hvað varðar þetta hugarfar, þetta nýsköpunarhugarfar. Þegar tækifærin detta fyrir framan okkur þá prófum við þau ekki strax. Það þarf einhvern veginn að velkjast fram og til baka og tíu árum seinna erum við enn þá að innleiða eitthvað Ísland 2,0. Tæknin sem þar er byggt ofan á og oft vísað í, þ.e. vefurinn 2,0, er tækni frá síðustu aldamótum. Við erum komin með 3, 4, 5 og það er verið að pæla í sjöttu útgáfu í gagnvirkninni hvað þá tækni varðar. (Forseti hringir.) Við erum langt á eftir, held ég, og við þurfum að gera betur í einmitt þessari nýsköpunarhugsun og nýta tækifærin um leið og þau koma.