154. löggjafarþing — 84. fundur,  11. mars 2024.

gervigreind.

654. mál
[16:55]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni þessa umræðu um gervigreindina og tek undir hans síðustu orð varðandi nýsköpun og nýsköpunarhugsunina. Það er gjarnan þannig á þessu sviði, miðað við samtöl mín við vísindafólkið, að það er komið langt á undan stjórnsýslunni. Við eigum alveg gríðarleg tækifæri á þessu sviði og umfram margar aðrar þjóðir og byggt á gögnum, ekki síst sem við höfum safnað bæði hjá Íslenskri erfðagreiningu og ekkert síður hjá Landspítalanum. Þessi samvinna er löngu hafin. Það sem við þurfum að gera oft varðandi nýsköpunarhugsunina er að við þurfum að kalla vísindafólkið með okkur og læra hratt og koma því áfram og styðja það við að koma kerfunum á almennilega. Það eru fjölmörg tækifæri hérna; klínískur stuðningur, gervigreindarlíkön geta veitt klínískan stuðning, greiningar sjúkdóma, nýta fyrirliggjandi upplýsingar fyrir einstaklinga. Við getum unnið úr upplýsingum um genamengi. Við getum notað gervigreindina í úrlestri myndgreiningargagna. Við getum nýtt spjallmenni. Þetta er alveg endalaust. Það er undirhópur stýrihóps sem hefur fengið þetta verkefni sérstaklega, að kalla til vísindafólkið okkar til að vinna að þessu með okkur, til að horfa á lagaumhverfið og alla stefnumótun varðandi þetta, hvernig við getum liðsinnt, hvaða áskoranir eru og velta upp öllum spurningum um það hvaða áskoranir fylgja. Þarna þarf þingið kannski að koma mjög afgerandi inn í þessa umræðu þegar kemur að löggjöfinni og þeim áskorunum sem fylgja því að vinna með gervigreindina.

Svo vil ég bara að lokum segja, hæstv. forseti, að hér þurfum við líka að komast bara á þann stað að skilgreina almennilega hugtakið og notkun þess í löggjöf á heilbrigðissviði og það er auðvitað hluti af okkar verkefni hér.