154. löggjafarþing — 84. fundur,  11. mars 2024.

hjúkrunarheimili á landsbyggðinni.

774. mál
[17:18]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni fyrir þessa fyrirspurn. Þetta er stór fyrirspurn. Hún er umfangsmikil. Við gætum rætt fjölmargt hér þegar kemur að þessari mikilvægu þjónustu, hjúkrunarheimilunum og fjármögnun hjúkrunarheimila.

Hv. þingmaður spurði hér hvort ég telji að fjármögnun hjúkrunarheimila á landsbyggðinni sé viðunandi. Þetta er auðvitað að mörgu leyti snúin spurning. Ég gæti staðið hér og velt því fyrir mér hvort ég ætti að svara henni játandi eða neitandi, en augljósa svarið er auðvitað já, viðunandi. Það er aldrei svo að við setjum þannig séð fjármagn í jafn stóran og mikilvægan þátt og þjónustu að því sé hægt að svara einhlítt. Það eru svo fjölmörg atriði. Hér kom hv. þingmaður inn á eitt atriði sem við höfum tekið til skoðunar og jafnvel borgað tvöfalt, þ.e. smæðarálagið, vegna þess að það er ólíku saman að jafna að vera með stórt heimili á höfuðborgarsvæðinu og lítið heimili úti á landi.

Hjúkrunarheimilin fá greitt samkvæmt samningum við Sjúkratryggingar Íslands. Sá samningur var til sérstakrar skoðunar 2019–2021 vegna þess að fjármögnunin var þung. Þá skipaði þáverandi heilbrigðisráðherra verkefnastjórn undir forystu Gylfa Magnússonar til að greina rekstrarkostnað hjúkrunarheimila. Það var gagnleg skýrsla að því leytinu til og verkefnastjórnin skilaði ráðherra þessari skýrslu 2021 í apríl. Í framhaldinu var skipaður starfshópur undir forystu heilbrigðisráðuneytis með fulltrúum fjármálaráðuneytis, sveitarfélaga og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu til að greina þessa fjárþörf betur. Þetta getur verið flókið, alls konar samningar og launasamningar sem þarf að fara yfir, ólík rekstrarform o.s.frv.

Þegar ég settist í stól heilbrigðisráðherra lagði ég ofuráherslu á það að ná samningum og með öflugri samningalotu, skulum við segja. Það voru nýmæli í þeim samningum um samvinnu á samningstímanum um fjölmarga af þeim þáttum sem hv. þingmaður kemur hérna inn á. Það voru undirritaðir samningar milli Sjúkratrygginga Íslands um rekstur og þjónustu hjúkrunarheimila á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu í apríl 2022. Tímamótasamningar að mínu viti og hafa fjölmargir undirhópar verið að vinna á samningstímanum að ýmsum umbótaverkefnum sem miða að því að bæta rekstrarumhverfi heimila til framtíðar og auka gæði þjónustu þeirra, m.a. með því að skoða ólíkan rekstur. Með samningunum var rekstrargrunnur hjúkrunarheimilanna jafnframt styrktur um 1 milljarð kr. á ársgrundvelli. Framlög vegna betri vinnutíma voru aukin um 1,2 milljarða kr. auk rúmlega 570 millj. kr. til að mæta aukinni hjúkrunarþyngd. Litlar rekstrareiningar voru þá styrktar með svokölluðu viðbótarsmæðarálagi sem bættist við það smæðarálag sem fyrir var. Í þessari samningalotu horfðum við inn í alla þessa þætti sem hv. þingmaður kemur hérna inn á.

Það er mikil þjónusta sem fer fram á hjúkrunarheimilum. Þetta er heimili fólks. Þarna fer líka fram heilbrigðisþjónusta svona eftir atvikum og eftir því sem þarf. Þá var einnig svokallaður útlagasjóður styrktur þar sem hjúkrunarþyngdin er veruleg, en hjúkrunarheimili geta sótt um viðbótarfjármagn í hann vegna sérstaklega kostnaðarsamrar þjónustu við einstaka íbúa. Fjármögnun hjúkrunarheimila sem heyra undir heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni hafa einnig verið til skoðunar í ráðuneytinu. Þær stofnanir eru á föstum fjárlögum og er unnið að því að tryggja fjármögnun þeirra heimila í takt við samning sjúkratrygginga, en eins og við þekkjum hér þá hafa sveitarfélögin í auknum mæli gefið frá sér rekstur hjúkrunarheimila og heilbrigðisstofnanirnar okkar tekið við þeim rekstri og gert það mjög vel. Það er auðvitað ákveðin samlegð í því. Ég get tekið sem dæmi að Heilbrigðisstofnun Austurlands er komin með öll hjúkrunarheimilin þar, síðasta hjúkrunarheimilið sem bættist þar við er hjúkrunarheimilið á Vopnafirði.

Það er að mörgu að huga í þessu en við höfum gert hér tillögu um 1 milljarð og 50 millj. kr. viðbótarfjárveitingu til reksturs hjúkrunarrýma heilbrigðisstofnana og það er svona sirka sá munur sem við erum að horfa til. En það eru auðvitað launasamningar og fleira sem ber að rýna betur.