154. löggjafarþing — 84. fundur,  11. mars 2024.

kerfi til að skrá beitingu nauðungar.

709. mál
[17:31]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur fyrir þessa fyrirspurn um kerfi til að skrá beitingu nauðungar. Hv. þingmaður spyr hér hver staðan sé á vinnu við þróun og innleiðingu kerfis fyrir heilbrigðisstarfsfólk og rakti ágætlega í kjölfarið á fyrirspurn svar ráðherra við fyrirspurn um þvingaða lyfjagjöf lögræðissviptra á þingskjali á 152. löggjafarþingi, eins og hv. þingmaður vísaði til. Í apríl 2021 óskaði heilbrigðisráðuneytið formlega eftir því að embætti landlæknis hæfi vinnu við þróun og innleiðingu kerfis eða viðmóts fyrir heilbrigðisstarfsfólk til að skrá beitingu nauðungar, eins og hv. þingmaður rakti svo ágætlega. Í því felst m.a. að stafræn þróun í skráningu þvingandi aðgerða verði tilbúin í hugbúnaðarlausn, samræmd skráning í rafrænni sjúkraskrá á beitingu nauðungar eða þvingunarúrræða sem ekki er til staðar í dag. Beiðni ráðuneytisins má jafnframt rekja til heimsóknarskýrslu umboðsmanns Alþingis vegna OPCAT-eftirlits á Klepp árið 2019 en þar kom fram að Landspítalinn skráði atvik í tvö aðskilin kerfi. Annars vegar væri um að ræða atvikaskráningu sem varðar sjúklinga og hins vegar skráningu sem varðar starfsfólk og gesti. Þannig kunni að þurfa að skrá eitt og sama atvikið í bæði kerfin. Með þessu fyrirkomulagi skapaðist hætta á að atvik væru ekki rétt skráð auk þess sem erfiðara væri að fá heildarsýn yfir atvik á deildum. Þá skapaði þetta aukna fyrirhöfn við skráningu fyrir starfsfólk en ef um einungis eitt skráningarkerfi væri að ræða.

Meðal ábendinga umboðsmanns í skýrslunni var að fylgja þyrfti eftir áformum um að taka í notkun nýtt atvikaskráningarkerfi sem heldur utan um skráningar á deildunum í einu kerfi í stað tveggja til að tryggja yfirsýn og öryggi í starfsemi deildanna. Taldi því ráðuneyti brýnt að bregðast við þessum athugasemdum og gert er ráð fyrir að kerfið verði fullbúið 1. janúar 2005 og fundar ráðuneytið nú reglulega með embætti landlæknis um stöðu mála. Þannig að ég hygg að hv. þingmaður sem vísaði í fyrirspurn hv. þm. Evu Sjafnar Helgadóttur, að það sé ágætisrakning á tilurð þessarar vinnu sem er vel.

Samhliða þessari vinnu hefur frumvarp um breytingu á lögum um réttindi sjúklinga, takmörk á beitingu nauðungar, verið lagt fram, fyrst á 151. löggjafarþingi og aftur á 152. löggjafarþingi. Vegna athugasemda ýmissa hagsmunasamtaka sjúklinga um skort á samráði við gerð frumvarpsins þá ákvað sá er hér stendur að afturkalla frumvarpið og setja á fót samráðshóp til að fjalla um afstöðu notendahópa betur en hafði verið og var gagnrýnt til nauðungar á heilbrigðisstofnunum og þær breytingar sem frumvarpinu er ætlað að hafa í för með sér þar að lútandi. Samráðshópurinn var skipaður fulltrúum sem tilnefndir voru af Geðhjálp, Landssambandi eldri borgara, Hugarafli, Öryrkjabandalagi Íslands og Landssamtökunum Þroskahjálp, auk tveggja fulltrúa heilbrigðisráðuneytisins sem voru skipaðir án tilnefningar.

Í samtali við heilbrigðisstofnanir um frumvarpið hefur verið lögð áhersla á að skráningarkerfi verði komið á fót og er þróun þess mikilvægur liður í að bregðast við þeim athugasemdum sem umboðsmaður Alþingis hefur sett fram og nefnd Evrópuráðsins um varnir gegn pyndingum. Því er lögð áhersla á þróun slíks kerfis sem verði til þess fallið að einfalda og auðvelda vinnu heilbrigðisstarfsfólks við skráningu atvika af þessum toga en ekki síst til að tryggja betur öryggi í starfsemi heilbrigðisstofnana þar sem getur komið til þvingunarúrræða.

Hér er áætlað, virðulegi forseti, að leggja fram áðurnefnt frumvarp um breytingar á lögum um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, um takmörk á beitingu nauðungar, og það þýðir á yfirstandandi þingi. Það er enn þá samtal í gangi um frumvarpið sem hefur tekið miklum breytingum og til batnaðar. Þetta skráningarkerfi skiptir jafnframt miklu máli. Ef að líkum lætur og það gengur allt eftir þá gerum við ráð fyrir að frumvarpið verði samþykkt á endanum og þá muni lög taki gildi 1. janúar 2025 ásamt skráningarkerfi. Embætti landlæknis fær þá einhvern tíma til að klára þróun hugbúnaðarlausnar vegna verkefnisins og heilbrigðisstofnanir ráðrúm til að undirbúa og innleiða verklagsbreytingar og skráningarferli. (Forseti hringir.) En auðvitað á öll umræða eftir að eiga sér stað hér á Alþingi.