154. löggjafarþing — 84. fundur,  11. mars 2024.

farþegalistar.

636. mál
[17:51]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Það er einfaldlega gott að draga þetta fram. Þetta er í lögum. Á lögum og reglum ber dómsmálaráðuneytið og ráðherra ábyrgð, að þeim sé framfylgt. Það er einfalt í mínum huga. Við erum ekki aðili að þessari tilskipun en það er verið að vinna að þessu. Ég tel mjög mikilvægt að það verði gert. En það breytir ekki því að það er ráðuneytið og ráðherra sem ber ábyrgð á því að þessum lögum sé fylgt eftir.

Á morgun ræðum við blýhúðun frá Evrópusambandinu eða EES hér í þingsal. Þetta er ekki hluti af því, en ég hefði haldið að þarna væri ákveðin frumkvæðisskylda af okkar hálfu sem hefði átt að kvikna fyrir margt löngu en ekki að koma okkur á óvart í dag þegar þessi mál eru mjög til umræðu. Þetta er bara enn frekari angi af því og maður spyr sig: Hvað hefur gerst í þessu ráðuneyti síðastliðin ár, misseri og ár, ef fólk hefur svona miklar áhyggjur einmitt af þessum farþegalistum?

Um leið og ég fagna því að það er verið að ná tvíhliða samkomulagi við Evrópuríkin þá breytir það ekki því að á meðan við erum ekki aðilar að tilskipunum og ákveðnu regluverki Evrópusambandsins, og það er ekki hluti af okkar EES-reglum, þá gilda náttúrlega okkar lög og reglur. Þeim ber að fylgja og meta þá eftir fremsta megni hversu mikinn þrýsting við eigum að setja á Evrópusambandið að klára þetta sem allra fyrst. Ég held að það sé mikið fengið með því að klára þennan samning við Evrópusambandið. En þetta sýnir líka að þegar við horfum á 97% af þeim listum sem við fáum, þá eru einhver 3% eftir, þá er þetta líka að einhverju leyti hluti af ákveðinni upplýsingaóreiðu sem er í tengslum við öll þessi mál. Að mínu mati eigum við að geta haft mun meiri og betri stjórn á okkar landamærum. Tólin og tækifærin hafa ráðuneytin, m.a. dómsmálaráðuneytið, og þau ber að nýta hverju sinni.