154. löggjafarþing — 84. fundur,  11. mars 2024.

endurskoðun laga um almannavarnir.

687. mál
[17:59]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Lög um almannavarnir voru sett árið 2008 og hafa sætt takmörkuðum breytingum síðan utan breytingafrumvarps sem var samþykkt á Alþingi sumarið 2022. Mikið hefur hins vegar reynt á lögin og það skipulag sem mælt er fyrir um í þeim. Vart þarf að fjölyrða um þær áskoranir sem íslenska almannavarnakerfið hefur staðið frammi fyrir undanfarin ár. Allt frá óveðrinu í desember 2019 hefur íslenska almannavarnakerfið verið virkjað ótal sinnum vegna margra en eðlisólíkra ógna. Hér má sem dæmi nefna snjóflóð, landris, eldgos, Covid-19 heimsfaraldur, tölvuárásir, flugslys og fjölda alvarlegra slysa. Þessar áskoranir hafa reynt mjög á viðbragðskerfi landsins. Í dag stendur almannavarnakerfið frammi fyrir stærstu og umfangsmestu áskorun síðari tíma vegna jarðhræringa á Reykjanesskaganum. Á sama tíma sýna aðrar eldstöðvar landsins merki um undanfara umbrota.

Stefna stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum gerir ráð fyrir því að lög um almannavarnir verði endurskoðuð. Í stefnunni segir að komið hafi í ljós veikleikar, bæði hvað varði viðbrögð en þó enn frekar er varðar þann þátt sem snýr að viðbúnaði samfélagsins við áföllum og undirbúningi fyrir þau. Mikilvægt sé að skoða alla þætti skipulagsins og meta hvaða lagabreytingar séu nauðsynlegar til að markmiðum almannavarna verði betur náð. Dómsmálaráðuneytið hefur í samstarfi við ráðgjafa farið í umfangsmikla greiningarvinnu sem fólst m.a. í spurningakönnun sem send var til helstu stjórnvalda og hagaðila og heimsóknum til lögreglustjóra, viðbragðsaðila, almannavarnanefnda og viðeigandi stjórnvalda þar sem farið var yfir skipulag, ábyrgð og hlutverk lykilaðila í almannavarnakerfinu. Í greiningarvinnunni hefur verið lögð rík áhersla á að leita til þeirra sem hafa reynslu af störfum innan viðbragðskerfisins. Farið hefur verið yfir veigamikil atriði í grunnskipulagi almannavarnakerfisins, svo sem skyldur og ábyrgð helstu stjórnvalda og viðbragðsaðila.

Samráðið stendur enn yfir og samhliða er hafin samning frumvarps til endurskoðaðra laga um almannavarnir. Með frumvarpinu verður lögð áhersla á að skýra hlutverk og ábyrgð þeirra sem bera ábyrgð á almannavarnaviðbrögðum en eins og fram kemur í núgildandi lögum taka lögin til samhæfðra almannavarnaviðbragða til þess að takast á við afleiðingar neyðarástands sem kann að ógna lífi og heilsu almennings, umhverfi og/eða eignum. Í þessu sambandi verður jafnframt lögð áhersla á það við gerð frumvarpsins að skýra og lögfestar reglur um sviðsábyrgð sem fela m.a. í sér að sá aðili sem fer venjulega með stjórn tiltekins sviðs samfélagsins eða svæðis skuli skipuleggja viðbrögð og koma að stjórn aðgerða þegar hættu ber að garði. Einnig verður farið yfir ákvæði laganna um valdheimildir stjórnvalda á hættustundu og þau rýnd.

Við gerð frumvarpsins verður haft áframhaldandi samráð við lykilaðila og gert er ráð fyrir að drög frumvarpsins verði birt í samráðsgátt stjórnvalda í sumar. Þá er ráðgert að frumvarpið verði lagt fram á haustþingi 2024 og hljóti þar þinglega meðferð.