154. löggjafarþing — 84. fundur,  11. mars 2024.

endurskoðun laga um almannavarnir.

687. mál
[18:05]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Forseti. Mér finnst nú hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir seilast kannski fulllangt með því að horfa til þess að við getum flutt inn einhverja hermenn til að taka á almannavarnaástandi, sem er viðvarandi ástand á Íslandi. Hversu oft upplifum við ár þar sem ekki er einhvers konar almannavarnaástand? Eigum við að treysta á það að fá hingað hermenn til að redda okkur eða eigum við að styðja við og byggja upp þá innviði sem við eigum hér í landi, sem eru þó nokkrir? Við eigum hér þúsundir manna í björgunarsveitum sem sinna almannavörnum í hjáverkum, sem gera það með því að betla fé frá almenningi í gegnum flugeldasölu og hvað það nú heitir. Við þurfum að gera alvöru úr því að fjármagna björgunarsveitirnar þannig að þær geti sinnt þessu starfi sem er okkur svo mikilvægt. Ef hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur finnst okkur mistakast við þá tilraun að styrkja björgunarsveitirnar (Forseti hringir.) þá getur hún komið hingað og rætt það að við förum að flytja inn hermenn. En við skulum fyrst byrja á því að sjá (Forseti hringir.) hvað við getum gert hér heima. (BHar: Ég myndi fara í andsvar ef ég gæti.)