154. löggjafarþing — 84. fundur,  11. mars 2024.

ytri rýni aðgerða á grundvelli laga um almannavarnir.

724. mál
[18:23]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Dagbjört Hákonardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég legg hér fram í dag munnlega fyrirspurn fyrir hönd hv. þingmanns Samfylkingarinnar, Þórunnar Sveinbjarnardóttur, um núgildandi fyrirkomulag rýni aðgerða á sviði almannavarna. Hún er lögð fram í því skyni að óska upplýsinga frá hæstv. ráðherra um það hvort til standi að endurskoða hvernig staðið er að ytri rýni aðgerða sem gripið er til á grundvelli 29. gr. laga um almannavarnir, nr. 82/2008. Það er af ærnu tilefni sem þessi fyrirspurn er lögð fram. Stjórnsýsla almannavarna hefur vissulega gengið í gegnum mjög miklar áskoranir á undanförnum árum, rétt eins og hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir áðan í ræðustóli í tilefni fyrirspurnar hv. þm. Gísla Rafns Ólafssonar sem var á svipuðum nótum, um heildarendurskoðun almannavarnalaga. Samkvæmt því sem fram kom áðan fagna ég því vissulega að til standi að við fáum að líta frumvarp sem kveður á um hugsanlega endurreisn þess fyrirkomulags sem þágildandi lög gerðu ráð fyrir við samþykkt laganna, þ.e. að ytri rýni á verkum, verklagi og framkvæmd í þágu almannavarna sæti rýni af hálfu hugsanlega óháðra aðila, en illu heilli var það fyrirkomulag afnumið með breytingalögum nr. 30/2022. Ég vona að hæstv. ráðherra geti upplýst mig og okkur um það hvort ytri rýni aðgerða verði endurskoðuð og þá hugsanlega með hvaða hætti í stórum dráttum.