154. löggjafarþing — 84. fundur,  11. mars 2024.

ytri rýni aðgerða á grundvelli laga um almannavarnir.

724. mál
[18:29]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Örstutt athugasemd. Ég fagna því að heyra að hæstv. ráðherra er að skoða það að fara í rauntímarýni á núverandi atburðum. Við erum í miðjum atburðum, eins og oft er sagt, og það gefur okkur gott tækifæri á að horfa aðeins til baka og skoða hvernig við höfum verið að gera hlutina hingað til, fá þessa ytri rýni sem gefur okkur innsýn í þetta. Getum við gert betur? Eru hlutir sem við gerðum sem hefðu kannski átt að fara öðruvísi? Er eitthvað sem við erum að gleyma? Mig langar í því sambandi að nefna að þetta er t.d. eitt af því þar sem hægt er að óska eftir aðstoð Evrópusambandsins við. Þar eru sérfræðingar sem þekkja vel almannavarnir, þekkja vel hvernig kerfin eru og geta komið með annan vinkil á málið heldur en við sem erum of tengd þessu myndum gera.