154. löggjafarþing — 84. fundur,  11. mars 2024.

ytri rýni aðgerða á grundvelli laga um almannavarnir.

724. mál
[18:30]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Dagbjört Hákonardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svarið og sömuleiðis hv. þm. Gísla Rafn Ólafssyni fyrir að blanda sér í umræðuna. Ég fagna því að almannavarnir séu hér ofarlega á baugi í dag. Sömuleiðis vil ég fagna því að við höfum sameiginlega sýn á mikilvægi þess að allt eftirlit með störfum þessara aðila sé hafið yfir allan vafa. Ég legg þann skilning í orð ráðherra að það standi til að afturkalla að einhverju leyti þær breytingar sem gerðar voru með breytingalögunum árið 2022. En ég kalla þá sömuleiðis eftir því að ráðherra tryggi fjármagn fyrir nýtt fyrirkomulag, viðeigandi fjármagn, og gangi úr skugga um að þeir aðilar sem sinna þessu eftirliti með störfum almannavarna hafi til þess trygga starfsaðstöðu, eigi þetta eftirlit að eiga heima í ráðuneytinu. Það verður bara að koma í ljós. En það hlýtur hver að sjá að niðurlagning rannsóknarnefndarinnar var ekki heillaskref og við ætlum ekkert að deila um það hér. En því síður var fyrra fyrirkomulag æskilegt, bara svo það sé sagt, þegar nefndin reyndist alfarið ófjármögnuð og engin heildarhugsun virtist vera til staðar um eftirlit með störfum almannavarna. Ég get þess hér nú að rannsóknarnefndin kom ekki saman á árunum 2009–2014, svo það sé bara sagt: Við viljum ekki að almannavarnaaðilar séu settir í þá stöðu að hafa eftirlit með sjálfum sér, hvort sem það er ríkislögreglustjóri eða aðrir. Við viljum bera traust til þessara aðila. Við berum traust til þeirra en við sjáum að eftir því sem áföll dynja yfir í meiri mæli og tjón verður á veraldlegum hlutum og persónufrelsi fólks sætir takmörkunum þá eykst áhættan á því að þetta traust hverfi. Ég vil ekki sjá það samfélag og ég held að enginn vilji það.

Að því sögðu vil ég nota tækifærið (Forseti hringir.) og þakka aðilum í almannavörnum kærlega fyrir óeigingjörn störf á liðnum vikum, mánuðum og misserum.