154. löggjafarþing — 84. fundur,  11. mars 2024.

aukið eftirlit á landamærum.

673. mál
[18:35]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Diljá Mist Einarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur margoft tekið undir viðvaranir lögregluyfirvalda hér um stóraukna ógn vegna skipulagðrar brotastarfsemi sem fer þvert á landamæri. Þau hafa gengið svo langt að segja umfangið og stöðuna vera grafalvarlega. Við hæstv. ráðherra höfum reyndar áður rætt þessi mál hér á Alþingi og keppst við að viðra áhyggjur okkar. Stóraukin umsvif alþjóðlegra glæpahópa eru greinileg hér á landi, m.a. á sviði fíkniefnasölu og mansals. Nýleg mál hér á landi eru skýrt merki um þetta. Skipulögð brotastarfsemi mun bara halda áfram að aukast, verði ekkert að gert. Slíkt ástand er ógn við öryggi íslensks samfélags, ekki síst fólks í viðkvæmri stöðu. Veikleikar á landamærum eru helsta áhyggjuefnið og við ættum að leita allra leiða til að stoppa í götin.

En við erum ekki ein um það að glíma við þennan vanda enda fer hann þvert á landamæri. Því hafa nágranna- og vinaþjóðir gripið til ýmissa aðgerða í tilraun til að sporna við ógnum sem steðja að þeirra samfélögum. Ég má því til með að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hún hyggist grípa til einhverra slíkra ráðstafana hér, en það væri í takt við þung orð hennar og viðvaranir lögreglunnar. Slíkar ráðstafanir eru m.a. tímabundin vegabréfaskylda. Þá væri fróðlegt að heyra frá hæstv. ráðherra hvort hún hafi þegar gripið til aðgerða og þá hverra til að auka eftirlit á landamærum Íslands.