154. löggjafarþing — 84. fundur,  11. mars 2024.

aukið eftirlit á landamærum.

673. mál
[18:44]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka það sem kom fram í máli mínu, að ef við ætlum að taka upp landamæraeftirlit þá verði það ekki gert nema að fengnu áhættumati frá ríkislögreglustjóra. Þau eru gerð með reglubundnum hætti. Síðasta áhættumat gaf ekki til kynna að ástæða þætti til að taka upp þetta eftirlit. En þessir áhættuþættir eru í sífelldri endurskoðun og eru vaktaðir mjög vel af ríkislögreglustjóra. Ég vil líka árétta það að þetta fyrirkomulag myndi krefjast mjög aukins mannafla hjá lögreglu og auk þess myndi þetta landmæraeftirlit taka mun lengri tíma en landamæraeftirlitið sem er í dag. Ávinningurinn af því, eins og kom fram í máli mínu hér fyrr í dag, er sá að við erum að ná um 93% farþega sem koma í gegnum Keflavíkurflugvöll, við erum að ná því eins og staðan er í dag með núverandi framkvæmd. Ef við ætlum að taka upp þetta eftirlit þurfum við að ráða gríðarlegan fjölda lögreglumanna til að sinna því og það er ekki hægt að sjá að ávinningurinn af því yrði í samræmi við þá fyrirhöfn sem það myndi krefjast. Ég ætla samt sem áður að ítreka í máli mínu að ég er með augun á landamærunum og sagði það hér fyrr í dag í óundirbúnum fyrirspurnatíma að ég tel einnig að landamærin séu ekki okkar stærsta áhyggjuefni. Það er útlendingalöggjöfin sem við verðum að aðlaga betur að nágrannalöndum okkar.