154. löggjafarþing — 84. fundur,  11. mars 2024.

skipulögð brotastarfsemi, vopnanotkun og refsiheimildir.

570. mál
[18:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Diljá Mist Einarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svarið. Það er gott að hlusta á hana tala um þennan málaflokk og við getum verið fullviss um að hún tekur honum mjög alvarlega. Ég tek undir orð hæstv. ráðherra um mikilvægi forvarnastarfs og virks samstarfs í afbrotavörnum, m.a. til þess að grípa jaðarsetta hópa en líka til að grípa ungmenni og börn. Og verkefnin sem lögreglan hefur beint að ungu fólki hafa verið algerlega til fyrirmyndar.

Dómsmálaráðherra vísar hér sömuleiðis í hertar og nýsamþykktar reglur á Alþingi um skotvopn. Hæstv. ráðherra gafst ekki tími til að fara lengra inn í svar sitt og bíð ég spennt eftir seinni hlutanum. En ég ætla samt að nýta lokasekúndurnar mínar til þess að hvetja hæstv. ráðherra til að skoða sérstaklega harðari refsingar. Ég hef fylgst með dómaframkvæmd hérlendis og umfjöllun um hana. Mér hefur þótt refsingar hafa verið skammarlega lágar í þessum málaflokki og þar sem þróunin hérlendis er iðulega aðeins á eftir þróuninni í nágrannalöndunum þá held ég að það sé full ástæða til að við fylgjumst vel með stöðunni í nágrannalöndum okkar, fylgjumst vel með þeim skrefum sem þau hafa verið að taka til þess að grípa inn í ástandið sem er auðvitað orðið mun verra en hér, eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir fór yfir áðan, þannig að ég bara bíð spennt eftir seinni hlutanum.