154. löggjafarþing — 85. fundur,  12. mars 2024.

rafeldsneytisframleiðsla.

[14:17]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir að hefja þessa sérstöku umræðu. Það er afskaplega mikilvægt og tímabært að dýpka umræðuna um þriðju orkuskiptin. Hv. þingmaður var hér með ýmsar spurningar sem ég ætla bara að svara strax: Það sem þarf er græn orka. Það er það sem þarf. Við þurfum að sjá til þess að fyrirtæki í opinberri eigu framleiði græna orku sem þau hafa verið hæg við að gera, en sömuleiðis þurfum við að einfalda reglugerðarumhverfið hjá okkur, m.a. með því að klára þau frumvörp sem hér liggja fyrir og hafa komið inn í þingflokka og þing, sem snúa að sameiningu stofnana, því að okkur liggur á.

Varðandi magnið þá er fyrir löngu búið að taka það út og miðað við þær niðurstöður sem grænbókin kom með á sínum tíma þá þurfum við alla vega að rúmlega tvöfalda grænorkuframleiðsluna til þess að ná markmiðum okkar um orkuskipti. Þar er langstærsti hlutinn flugið. Við erum mjög stór í millilandaflugi. Við erum sömuleiðis stór þegar kemur að fiskiskipunum og sömuleiðis flutningsskipunum. Við erum að sjá það að íslensk fyrirtæki eru mjög stórhuga þegar kemur að þessu. Reyndar er það þannig að Samskip hafa nú hafið smíði á tveimur nýjum skipum sem þýðir með einföldum hætti að þeir eru í fremstu röð í Evrópu þegar kemur að því. Sömuleiðis hefur í það minnsta Icelandair miklar hugmyndir um það að nýta sér rafeldsneyti. En okkur vantar orku. Það er alltaf sama svarið.

Hv. þingmaður vísaði hér til vindorkunnar. Núna eru í yfirlestri frumvörp og þingsályktunartillaga sem kemur út úr vinnu hóps þar um. Það er afskaplega mikilvægt að þingið vinni þau hratt og vel, sömuleiðis önnur þau frumvörp sem munu koma hér fram sem snúa að því að einfalda og gera hluti skilvirkari þegar kemur að grænni orkuöflun, vegna þess að við höfum gert mjög lítið þegar kemur að grænni orkuöflun í áratugi og nú er komið að skuldadögum.

Það er nú bara þannig og núna stöndum við frammi fyrir því — vegna þess að það sem við erum að gera er bara nákvæmlega sama og foreldrar okkar og afar og ömmur gerðu í fyrstu og öðrum orkuskiptunum, þ.e. að taka út rússneska olíu og setja íslenska endurnýjanlega orku, hvort sem það var rafmagnið eða heita vatnið, í staðinn. Þetta er ekkert flóknara. Þótt það sé flóknara að búa til rafeldsneyti, það er ekki sama — við erum ekki með sömu nýtingu og við erum með þegar við notum t.d. rafmagn á bílana okkar og þess vegna þurfum við meiri orku í það. Svo er það bara spurningin: Verðum við kynslóðin sem förum í orkuskiptin og flytjum við inn norskt rafeldsneyti eða verður það íslenskt? Það er bara spurningin. Þeir sem sitja í þessum sal hafa bara mjög mikið um það að segja hvernig þeir vinna því að það er ekki nóg að koma hér upp og segja: Heyrðu, við viljum ná árangri í loftslagsmálum. Við viljum ná árangri í orkuskiptum, vegna þess að það er ekki hægt nema þau frumvörp sem hér eru fyrir þinginu séu samþykkt.

Auðvitað er gott að sjá breytingu á viðhorfi, af því að t.d. rammaáætlun, sem var samþykkt, var bara samþykkt af þingmönnum stjórnarflokkanna. Enginn stjórnarandstæðingur greiddi atkvæði með henni og ef allir hefðu greitt atkvæði eins og stjórnarandstaðan, ef undan er skilinn einn Miðflokksmaður, þá ættum við enga von í þessum málum. Enga.

Ég fagna sinnaskiptum Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Flokks fólksins í þessum málum. Það er vel. En það þarf meira til. Við erum auðvitað með gríðarlega mikil tækifæri en þau verða ekki nýtt nema við séum með græna orku. Það að framleiða rafeldsneyti er stórmál og áhættusamt og við vitum ekki hvernig það þróast og ég vara við öllum hugmyndum um að menn noti peninga skattgreiðendanna í slíkt. Við erum með opinber fyrirtæki sem eiga að framleiða græna orku, sem þurfa að gera betur þar. En þegar kemur að þessum mikla samkeppnisrekstri sem rafeldsneytið verður þá er ekki skynsamlegt að fara í slíkan áhætturekstur með fjármuni skattgreiðenda.