154. löggjafarþing — 85. fundur,  12. mars 2024.

rafeldsneytisframleiðsla.

[14:27]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Það er gott að ræða hlutina tímanlega og þegar kemur að rafeldsneyti þá erum við það svo sannarlega vegna þess að hér erum við að tala um framtíðarmúsík. Þetta er orkugjafi sem er svo langt frá því að verða að einhverjum meginstraumi í orkubúskap heimsins á næstu áratugum. Tökum sem dæmi flugvélarnar sem eru stærsti hlutinn í þeim orkuspám sem eru fyrir Ísland. Þróun þeirrar tækni sem þarf til að fljúga flugvélum á rafeldsneyti er afskaplega skammt á veg komin.

Þetta er hins vegar umræða sem er vert að taka. Eins og hv. málshefjandi nefndi þá yrði hér um að ræða stórframleiðslu á alþjóðlegum samkeppnismarkaði og þá er kannski rétt að við spyrjum eins og sumir þingmenn hafa gert hér: Myndum við njóta stærðarhagkvæmninnar sem þarf til að standast þá samkeppni? Er þetta lest sem við getum farið á? Er þetta lest sem við eigum að reyna að fara á eða ekki? Bandaríkin og Japan ætla t.d. að verða stórtæk í framleiðslu á rafeldsneyti og þar verður sko beitt ríkisfé. Þar á að styrkja allt í botn. Er það samkeppni sem við nennum að standa í þegar við getum gert eitthvað annað með orkuna okkar og flutt inn rafeldsneyti frá Noregi? Það er ekki eins og það sé það versta í heimi, herra forseti, eins og hæstv. ráðherra vill vera láta.

Svo þurfum við líka að taka grundvallarspurningarnar eins og hvort markaðsdeildir flugfélaganna eigi að vera einráðar um það hvernig orkubúskapur þjóðarinnar þróast. Er náttúrulögmál að aukningu ferðamanna sé stýrt af fyrirtækjum úti í bæ en að ríkið hafi ekkert um það að segja þegar markmið í loftslagsmálum standa og falla með því?

Mig langar, herra forseti, annars að fagna því að hafa séð hæstv. ráðherra koma upp í pontu og tala af smáeldmóði um loftslagsmál, því miður þann anga loftslagsmála sem gæti komið til kastanna eftir tvo, þrjá áratugi (Forseti hringir.) en ekki þau mál þar sem núverandi ríkisstjórn er með allt niðrum sig hér og nú. Þekkt tækni er til staðar (Forseti hringir.) til að ná fram orkuskiptum í samgöngum á landi. Þar er ríkisstjórnin ekki að skila sínu. Það er náttúrlega þægilegt fyrir hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) að tala um eitthvað sem skiptir minna máli hér í dag en mikið væri nú gaman (Forseti hringir.) að sjá ráðherrann mæta hingað og brenna fyrir því að ná árangri núna.