154. löggjafarþing — 85. fundur,  12. mars 2024.

rafeldsneytisframleiðsla.

[14:30]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir með þeim sem hafa sagt að þetta sé mikilvæg umræða hér í dag og raunar marglaga, þar sem margir vinklar eru undir sem hvern um sig væri hægt að ræða í ítarlegu máli en er örðugt að gera á tveimur mínútum eins og ræðutíminn er hér. Ég vil því nýta tímann til að koma á framfæri meginsjónarmiði sem ég og við í VG teljum mikilvægt að hafa í huga inn í þessa umræðu. Það er að þegar kemur að orkuskiptum og framleiðslu á rafeldsneyti verði skuldbindingar og ábyrgð Íslands í orkuskiptum og því að ná fram kolefnishlutleysi að vera í forgrunni og allt regluverk verður að tryggja að við getum gert það.

Ég skal ekki segja um það á þessari stundu hversu eða hvort og í hve miklu magni framleiðsla á rafeldsneyti sé hagkvæm vegna stærðar en vil taka undir með þeim sem hafa nefnt að það sé mikilvægt, í það minnsta framan af, að það verði notað hér á Íslandi til að ná fram okkar áformum í orkuskiptum. Ég tel að það sé full ástæða til að skoða það hvort umframorka sem er til eða kann að verða til í raforkukerfum framtíðarinnar nýtist kannski í þetta. Það er mörgu ósvarað enn, en fyrsta atriðið er að við þurfum að hugsa þetta heildstætt (Forseti hringir.) og að þetta sé í takti við það sem við ætlum að ná fram í hinu mikilvæga máli, orkuskiptum og kolefnishlutleysi.

(Forseti (AIJ): Forseti minnir á að ræðutími í sérstökum umræðum er afar takmarkaður.)