154. löggjafarþing — 85. fundur,  12. mars 2024.

rafeldsneytisframleiðsla.

[14:50]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og öllum þeim þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni. Eins og í allri góðri umræðu var mörgu svarað en kannski kviknuðu enn fleiri spurningar. Líkt og komið hefur fram hér í dag getur framleiðsla rafeldsneytis úr endurnýjanlegum orkugjöfum orðið liður í orkuskiptum á Íslandi en við gætum líka staðið frammi fyrir því að kaupa eldsneyti erlendis frá og við verðum að velta þessum möguleikum fyrir okkur. Fjárfesting í þekkingu á innviðum til framleiðslu á rafeldsneyti er kostnaðarsöm og henni fylgir áhætta og á sama tíma þyrfti að fjárfesta í orkuöflun og flutningskerfum. Ég velti fyrir mér hvernig orkustefna og eigendastefna Landsvirkjunar hvetja til orkuskipta eða að forgangsraða orku til orkuskipta. Það fjármagn sem sett var í uppbyggingu af þessu tagi hefur alla möguleika á að margfalda sig til lengri tíma en mér finnst af umræðunni að útflutningur væri á einhvern hátt sjálfstæð ákvörðun. Þó þarf að taka hana áður en framleiðslan hefst þannig að það liggur á að taka þá ákvörðun. Eins þurfum við að ræða álitamálin betur sem varða eignarhaldið. Ég er ekkert endilega sannfærð um að tillaga hv. þm. Stefáns Vagns Stefánssonar um ríkisfélag um rafeldsneytisframleiðslu sé sú eina rétta en hún er mjög mikilvægt innlegg í umræðuna og ég tel samstarf opinberra og einkafyrirtækja vel koma til greina. Ég fagna orðum ráðherra um að hraða afgreiðslu mála sem ætlað er að skapa umgjörð fyrir fólk, fyrirtæki og sveitarfélög til að taka nauðsynlegar ákvarðanir varðandi orkuöflun og framleiðslu rafeldsneytis og hvet til áframhaldandi markvissrar vinnu.