154. löggjafarþing — 85. fundur,  12. mars 2024.

,,Gullhúðun" við innleiðingu EES-gerða frá árinu 2010 til 2022.

619. mál
[15:08]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki alveg hvað hv. þingmaður er að vísa til hér. Ég ber ábyrgð á því að við erum komin með þessa skýrslu og veit að ráðherra hefur farið í þá vinnu að bæði koma fram með skýrsluna en ekki síst að fara í afhúðun. Ef það eru einhver dæmi um það í minni tíð að gullhúðun hafi verið beitt án þess að þing og þjóð viti af því þá myndi ég gjarnan vilja fá að vita það, því að það liggur fyrir algerlega skýr vilji af minni hálfu að það á ekki að gerast og ég vona að það hafi ekki gerst. Ef það hefur gerst þá þurfum við að laga það. Þó er alveg rétt að það komi fram að eftir að þessi skýrsla kom finnur maður að hinir ýmsu aðilar eru miklu meira vakandi og koma með allra handa ábendingar sem við förum öll yfir. Vilji minn er alveg skýr og kemur ekki bara fram í því embætti sem ég er í núna heldur ekki síður í því embætti sem ég var í áður sem utanríkisráðherra, og svo sem líka sem hv. óbreyttur þingmaður.