154. löggjafarþing — 85. fundur,  12. mars 2024.

,,Gullhúðun" við innleiðingu EES-gerða frá árinu 2010 til 2022.

619. mál
[15:48]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa mikilvægu skýrslu sem er mjög athyglisverð og nauðsynleg fyrir okkur til að læra af. Þetta er fyrir margra hluta sakir áhugaverð umræða sem hér á sér stað. Hér ræðum við skýrslu að ósk stjórnarþingmanns um það hvernig ríkisstjórnin sjálf hefur gullhúðað regluverk EES án þess að fram hafi farið nokkur umræða eða að um það hafi verið upplýst. Það mætti svo sem lýsa þessu sem einhvers konar stöðumati ríkisstjórnarinnar sjálfrar á því hvernig hún hefur sjálf að eigin frumkvæði flækt regluverk Evrópusambandsins. Samkeppnishæfni Íslands er eitt mikilvægasta viðfangsefni okkar allra. Við erum í stöðugri samkeppni við önnur lönd um lífsgæði og tækifæri og það er óumdeilt að EES-samningurinn færði okkur nákvæmlega þetta; aukin lífsgæði og tækifæri. Hann hefur verið rót hagsældar á Íslandi en honum fylgir líka sú krafa að við innleiðum samevrópskt regluverk til að einfalda og samræma það umhverfi sem fólk og fyrirtæki búa við, alveg eins og ef þú gengur í kór er gerð sú krafa að þú syngir sama lag og aðrir.

Tilskipanir og reglugerðirnar sem við tökum upp eiga það sammerkt að hafa jákvæð áhrif á réttindi okkar, viðskiptahagsmuni og samfélagið í heild. Án samningsins um Evrópska efnahagssvæðið stæðum við ekki jafn framarlega og við gerum nú. Síðan er það þannig að hverju ríki er nokkuð frjálst að ganga lengra þegar sérstakur áhugi er fyrir því eða einhverjar aðstæður kalla á það. Ríki mega yfirleitt herða kröfur við innleiðingu ef þau telja það vera í samræmi við hagsmuni sína. Hér virðist sú leið hins vegar vera farin algerlega óháð nokkru hagsmunamati. Sjálfstæðisflokkurinn ásamt öðrum stjórnarflokkum hefur aftur og aftur ákveðið að nota þetta frelsi til að gera regluverkið þyngra og flóknara. Líkt og þegar hefur verið nefnt, og ég tek undir, er mun nærtækara að kalla þetta blýhúðun en gullhúðun og blýhúðunarblæti íslenskra stjórnvalda, sem þrengir að almenningi og fyrirtækjum, er oft og tíðum varhugavert. Þungt og flókið regluverk veldur bæði töfum og auknum kostnaði á hverju einasta stigi samfélagsins og atvinnulífsins og skilar sér að lokum í auknum kostnaði fyrir heimili landsins. Það er bara rosalega mikið hagsmunamál að aflétta þessum auknu byrðum. En þetta er hins vegar pólitísk ákvörðun sem stjórnarflokkarnir meðal annarra bera ábyrgð á. Þessi skýrslubeiðni er þó vísbending um að þeir séu að vakna eftir áralangan svefn; tala nú um að gullhúðun sé með öllu ótæk og láta eins og þeir hafi ekki komið nálægt henni. Það er erfitt að ímynda sér að þingmenn meiri hlutans ætli núna að slá sig til riddara og berjast gegn blýhúðuninni sem þeir bera sjálfir ábyrgð á.

Virðulegur forseti. Viðreisn vill auka samkeppnishæfni Íslands. Það er alveg skýrt. Viðreisn vill byggja undir frjótt atvinnulíf og sterka innviði. Það verður m.a. gert með einföldun regluverks. Þess vegna styðjum við að sjálfsögðu þá vegferð að taka nú upp strokleðrið og þurrka út blýið. En þingmenn Sjálfstæðisflokksins ættu nú ekki að láta eins og þeir séu að taka til eftir einhverja aðra en sína eigin ríkisstjórn. Svo virðist sem kapphlaup sé farið af stað í þeim flokki við að tala um vandann sem blýhúðunin hefur skapað og hversu mikilvægt það er að koma henni frá. Það er auðvitað atvinnuskapandi að skrifa um það skýrslu í umhverfisráðuneytinu á sama tíma og hæstv. utanríkisráðherra hefur skipað starfshóp um málið. Hreinlegast hefði samt verið að sleppa því bara að blýhúða löggjöfina okkar með þessum hætti. En þetta er auðvitað ákveðin atvinnustefna, að búa fyrst til vandamál til að búa til störf fyrir fólk og leysa svo þau vandamál sem maður sjálfur bjó til. Það er líka áhyggjuefni hversu langan tíma innleiðingarnar taka hjá ríkisstjórninni. Blýhúðunin er hluti af þeim vanda en hún skýrir samt ekki tregðuna, t.d. í kringum orkupakkann fræga og núna bókun 35. Þær tafir skrifast á innri deilur stjórnarflokkanna.

Virðulegur forseti. Það liggur fyrir, þrátt fyrir það sem sumir þingmenn vilja halda fram, að blýhúðunarvandinn kemur ekki frá Brussel. Vandinn er að öllu leyti heimatilbúinn. Eins og fram kemur í þessari skýrslu eru rúmlega 40% þeirra tilskipana sem hafa verið innleiddar frá EES í ráðuneyti umhverfismála gullhúðuð. Ætla má að önnur ráðuneyti séu á svipuðu róli. Hvernig mun ríkisstjórnin bregðast við? Ætlar hún að skipa fleiri starfshópa? Þegar við bætum við regluverk sem kemur frá EES er ekki lengur hægt að ganga út frá því að fólk og fyrirtæki séu jafnsett hér og annars staðar. Þau líta á þunglamalegar, flóknar og stífar reglur sem stein í götu sinni og sleppa því frekar að koma og hefja hér starfsemi. Við í Viðreisn fögnum að sjálfsögðu öllum skrefum í þá átt að aflétta þessum auknu byrðum og hvetjum hæstv. ráðherra til dáða að létta á blýinu sem skapað hefur verið á vakt þessarar ríkisstjórnar.

Það er svo sérstakt áhyggjuefni, sem fram kemur í skýrslunni, að oft sé ekki tekið fram með skýrum hætti í greinargerð innleiðingarfrumvarpa að þau hafi verið gullhúðuð. Almenningur getur því ekki séð að lögin hér séu óþarflega íþyngjandi og andstæðingar Evrópusamstarfs benda á Brussel sem sökudólg þegar ábyrgðin liggur hjá ríkisstjórninni á hverjum tíma. Það er áhyggjuefni að framkvæmdarvaldið búi svo um hnútana og veiti vatni á myllu þeirra sem vilja nýta sér í pólitískum tilgangi að grafa undan einum mikilvægasta samningi Íslands.

Viðreisn styður tillögu sem fram kemur í skýrslunni um að framvegis verði sérstakur kafli í innleiðingarfrumvörpum þar sem skilmerkilega er gert grein fyrir og rökstutt þegar gengið er lengra en felst í lágmarkskröfum viðkomandi EES-gerðar og sömuleiðis ef vikið er frá meginreglunni um hrein innleiðingarfrumvörp. Við tökum undir eftirfarandi orð, með leyfi forseta:

„Slíkt […] verklag er til þess fallið að fyrirbyggja tortryggni og stuðla að skilvirkara og vandaðra innleiðingarferli.“

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, fagna því að þessi skýrsla sé fram komin. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja hana fyrir þingið. Í henni er að finna ábendingar sem við eigum að geta lært af og tileinkað okkur, þ.e. ef vilji er til þess.