154. löggjafarþing — 85. fundur,  12. mars 2024.

,,Gullhúðun" við innleiðingu EES-gerða frá árinu 2010 til 2022.

619. mál
[16:04]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna það að ég hef klóraði mér svolítið í kollinum í umræðu undanfarna daga og vikna um gullhúðun eða það sem stundum er kallað blýhúðun og jafnvel afhúðun. Ég verð að viðurkenna að ég á svolítið erfitt með að greina hvert markmiðið er með umræðunni og hef þess vegna hlustað á umræðurnar í dag og ákvað að kveðja mér hljóðs.

Fyrst langar mig, af því að hér hefur verið mikið talað um regluverk sem sé íþyngjandi fyrir fyrirtæki og almenning, að halda því til haga að ég tel að regluverk sé almennt og nálega alltaf sett almenningi til verndar og hagsbóta. Við getum nefnt um það alls konar dæmi sem ég veit að við erum ekki alltaf pólitískt sammála um, sumt af því á rætur sínar að rekja til Evrópusambandsins eða EES-gerða og annað bara úr íslenskri löggjöf. Mig langar í þessu samhengi að nefna byggingarreglugerð sem mjög oft er nefnd þegar kemur að íþyngjandi regluverki, reglugerð sem í sögulegu samhengi hefur gert gríðarlega mikið til þess að standa vörð um rétt almennings til góðs og heilsusamlegs húsnæðis.

En að þessari skýrslu og umræðunni um hana. Hér segir að hugtakið gullhúðun sé notað um það þegar stjórnvöld einstakra ríkja ganga lengra og setja íþyngjandi ákvæði umfram þær lágmarkskröfur sem gerðar eru í EES-gerðum við innleiðingu. Tekið er fram að slíkt sé heimilt samkvæmt íslenskum lögum og reglum en þó séu gerðar kröfur um það hvernig það sé gert. Og ég segi bara: En ekki hvað? Við erum löggjafarvaldið á Íslandi og að sjálfsögðu er það okkar að meta hvernig við viljum innleiða þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist með því að vera aðilar að hinum evrópska efnahagsmarkaði. Það er mjög oft þannig að það er sveigjanleiki eða valkostur við það hvernig reglur eru innleiddar, þ.e. það er svigrúm innan tilskipunarinnar. Þó þarf að fara fram einhvers konar hagsmunamat um það hvaða leið eigi að fara og það er örugglega oft háð pólitísku mati, stundum flokkspólitísku, örugglega stundum landspólitísku. Það eru alls konar atriði sem geta haft áhrif á það hvaða leið er farin og já, svo getum við gengið enn lengra. Það er það sem pólitík snýst um og það er það sem við erum kosin til að gera.

Margs konar innleiðingar undanfarin ár hafa verið á ýmiss konar fjármálaregluverki til þess að auka öryggi og hagsmuni og til að gæta að hagsmunum almennings til að mynda. Þar höfum við margoft notað svigrúm sem hægt er að nýta sér, t.d. vegna stærðar Íslands og stærðar fyrirtækja þar sem íslensk fyrirtæki eru almennt lítil eða mjög lítil í evrópsku samhengi. Og ég spyr: Verður næsta gullhúðunarumræðan um innleiðingar á sviði fjármálaregluverksins, af því áherslan hér í dag hefur mest verið á umhverfismálin? Mig langar, frú forseti, að taka undir það sem Bjarni Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, kom inn á í ræðu sinni hér áðan hvað varðar umhverfismálin sérstaklega.

Virðulegi forseti. Við erum löggjafarvaldið á Íslandi. Við erum aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu og höfum skuldbundið okkur til samstarfs og að taka upp regluverk á tilteknum sviðum. En við megum alltaf ganga lengra ef við teljum það þjóna okkar hagsmunum og það er það sem vinnan okkar gengur út á að hluta til.

Að þessum meginsjónarmiðum mínum reifuðum vil ég líka segja það að Alþingi á auðvitað að gaumgæfa og vanda sína löggjöf, hvaðan sem hún á uppruna sinn. Við eigum að gera kröfur um vandaðar greinargerðir með öllum þingmálum því það er til þess að auka gagnsæi, hjálpa okkur að spyrja gagnrýninna spurninga og komast að niðurstöðu. En munum að löggjafarvaldið er okkar. Það er okkar að sníða regluverkið til til þess að það gagnist almenningi hér á landi með sem bestum hætti.