154. löggjafarþing — 85. fundur,  12. mars 2024.

,,Gullhúðun" við innleiðingu EES-gerða frá árinu 2010 til 2022.

619. mál
[16:19]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Að sjálfsögðu skiptir bókun 35 máli hér. Þegar Ísland veitir minni rétt en samkvæmt EES-samningnum þá þurfum við að leiðrétta það með löggjöf. En við getum ekki sett eina reglu um að ESB-lögin gangi alltaf lengra til að afgreiða það mál í eitt skipti fyrir öll. Það þurfum við að sjálfsögðu að gera í stjórnarskrá svo að við séum ekki að taka fyrir hendur löggjafarvaldsins. Það er talað um blýhúðun og það allt, sem eru íþyngjandi reglur. Við getum líka veitt meiri rétt en lágmarkskröfur EES. Það er gott og blessað að gera það, t.d. út af íslenskum aðstæðum. Þá fáum við meiri rétt en önnur lönd á Evrópska efnahagssvæðinu, það er gott og blessað. Ég bara get ekki séð það að þegar við erum að tala um blýhúðun — þegar reglur okkar eru íþyngjandi — þá sé það stórkostlegt vandamál. Og síðan hinum megin, þegar þær ná ekki þeim rétti sem EES-reglur segja, að þá ætlum við að leysa það með einni löggjöf í eitt skipti fyrir öll. Við þurfum að horfa á þetta í hvert skipti, bæði þegar lögin ganga of skammt, þá geta einstaklingar fari í skaðabótamál ef íslenska ríkið er að brjóta á þeim. En það breytir því ekki að hér inni þurfum við alltaf að sjá til þess að okkar reglur séu í samræmi við EES-reglurnar og ef við ætlum að hafa íþyngjandi reglur þá sé það algerlega meðvitað og við séum upplýst um það. Og líka að það sé tekið tillit til þess ef við göngum of skammt, þá á líka að tilgreina það og láta okkur vita: Heyrðu, við erum með löggjöf hérna sem gengur of skammt. Greiningin þarf að vera á báða vegu, að ganga of langt og ganga of skammt, svo að það komi fram. Þetta þarf að vera heildstæð greining á öllum stigum og sérstaklega hvað þetta varðar. Það er ekki bara hægt að flagga því þegar við ætlum að hafa aukareglur, það þarf líka að sjá til þess þegar við göngum of skammt, svo að það liggi fyrir.

Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann um, þar sem við erum að tala um bókun 35: Mun hún styðja lagafrumvarp um það að þessi blessaða bókun verði færð í lög? Mér skilst að þingmenn í Sjálfstæðisflokknum hefðu fyrir 30 árum ekki samþykkt EES-samninginn í þingsal með henni og það var leyst með 3. gr. laga um EES-samninginn, um samræmi skýringar. Gerð er góð grein fyrir þessu í greinargerðinni fyrir 30 árum, bæði um bókun 35 og líka um 3. gr.