154. löggjafarþing — 85. fundur,  12. mars 2024.

,,Gullhúðun" við innleiðingu EES-gerða frá árinu 2010 til 2022.

619. mál
[16:22]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri það að hv. þm. Eyjólfur Ármannsson, sem ég þakka kærlega fyrir andsvarið, ætlar ekki að taka það gott og gilt og við höfum áður rætt hérna um bókun 35 og (Gripið fram í.) munum eflaust gera aftur. Ég heyri það að okkur greinir á um útfærsluna en erum sammála um endanlega niðurstöðu, ef ég skildi hv. þingmann rétt, þ.e. að Íslendingar séu ekki snuðaðir um réttindi sem þeir eiga samkvæmt EES-samningnum. Þannig að þetta er í rauninni bara útfærslan sem okkur greinir á um. Og af því að hv. þingmaður spyr hvort ég muni styðja frumvarp sem ég hef ekki séð af því það er ekki fram komið þá lýsi ég því auðvitað ekki yfir að ég muni styðja frumvarp sem ég hef ekki séð. En ég er búin að margsegja það í þingsal og sagði það í umræðum um síðasta frumvarp sem hér var til umræðu og ég studdi, að ég styð það að við finnum lausn á þessu máli. Það er nú enginn annar en æðsti dómstóll Íslands, Hæstiréttur Íslands, sem hefur fundið að þessari framkvæmd og þessu fyrirkomulagi og við verðum auðvitað að bregðast við því þegar æðsti dómstóll Íslands finnur að framkvæmdinni, bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin og hefur verið margtuggin þar í dómaframkvæmd. Þannig að ég styð það að við hér í þinginu finnum sameiginlegan flöt og sameiginlega lausn á þessu vandamáli sem upp er komið og hefur nýlega birst mjög skýrlega í dómaframkvæmd Hæstaréttar, æðsta dómstóls Íslands.