154. löggjafarþing — 85. fundur,  12. mars 2024.

,,Gullhúðun" við innleiðingu EES-gerða frá árinu 2010 til 2022.

619. mál
[16:28]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Hér kemur ráðherrann í aukahlutverkinu. Það verður að segjast eins og er að þessi umræða hefur um margt verið alveg ágæt og hún hefur tekið á sig ýmsar myndir. Ég verð að viðurkenna að ég áttaði mig ekki alveg á því en ég greindi svolítinn pirring hjá ýmsum og erfitt að skilja eða festa hendur á nákvæmlega hvers vegna það er. Ég alla vega vona að það sé enginn hv. þingmaður, sama hvaða skoðanir hv. þingmenn hafa — og þær eru mismunandi og það er alveg vitað og til þess er leikurinn gerður — en vonandi verður það aldrei svo, ekki að ég hafi neinar áhyggjur af því, að hér verði allir sammála um alla hluti. En það sem um er að ræða hér, og ég ætla aðeins að rifja það upp ef einhver er að koma og fylgjast með umræðunni eða lesa hana, er sérstakt vandamál og menn hafa haft af því áhyggjur að við séum að innleiða hluti með þeim hætti að löggjöfin geri strangari kröfur til íslenskra einstaklinga og lögaðila, eins og hv. þm. Logi Már Einarsson vísaði hér til, heldur en við þurfum að gera. Þá kynni einhver að spyrja: Bíddu, má það ekki? Jú, auðvitað má það. En vandinn er sá að þing og þjóð veit ekki af því.

Ég er ekki að koma nýr að þessu máli. Ég setti af stað starfshóp Björns Bjarnasonar, Kristrúnar Heimisdóttur og Bergþóru Kristjánsdóttur sem tók þetta m.a. fyrir og í kjölfarið var verklaginu breytt. Við breyttum verklaginu 2018 þannig að það þarf að taka það skýrt fram í öllum málum ef menn ætla að ganga lengra og þingið verður að vera meðvitað um það og taka upplýsta ákvörðun um það.

Hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttir og fleiri komu með þessa skýrslubeiðni sem ég fagnaði mjög mikið. Ég kem með þessa skýrslu inn í þingið sem gerist alla jafna ekki, en ég bað um að þingið myndi fá umræðu um þetta mál vegna þess að þetta er grafalvarlegt. Það grefur undan lýðræðinu þegar menn ganga fram með þessum hætti. Það er enginn sem í rauninni getur gefið almennilega skýringu á því af hverju þetta er. Það grefur ekki bara undan EES-samningnum heldur líka trú á stofnunum eins og Alþingi þegar svona er gengið fram og þess vegna er ég að koma með þessa umræðu hér inn í þingið, skýrslu inn í þingið, til þess að ræða það. Ég er ekki að biðja menn að vera sammála í málaflokknum sem ég sem ráðherra fer fyrir. Ég er ekkert að biðja um það. Það er bara sjálfsagt að menn haldi áfram að deila um það. En ég er að biðja um það að við sameinumst og gerum allt hvað við getum til þess að þegar við tökumst á um mál sé algerlega vitað hver þeirra eru innleiðingarmál og hver þeirra eru eitthvað sem við erum að takast á um af því að við höfum mismunandi skoðun á þeim. Ég hef hafið það verkefni, gerði það strax, að afhúða. Af hverju? Vegna þess að það er algerlega fráleitt að það sé einhver löggjöf sem menn töldu að væri innleiðing en er svo eitthvað allt annað. Það er algerlega fráleitt og stórhættulegt.

Ég ætla að vísa í skýrsluna á bls. 40 og með leyfi forseta lesa hérna stuttan kafla sem sýnir hvað hér er um að ræða. Bara dæmi, raunveruleg dæmi. Þar segir:

„Þá er einnig að finna í frumvarpinu nokkur augljós dæmi um gullhúðun án þess að þess sé getið sérstaklega í frumvarpinu: Þannig er í 12. gr. frumvarpsins gert ráð fyrir að ríkari kröfur verði settar í íslenska löggjöf en tilskipunin kveður á um í eftirfarandi tilfellum:“ — Og síðan eru fjórir liðir.

Í fyrsta lagi: „Í lið 3.11 er lagt til að leiðslur sem eru lengri en 1 km og með þvermál yfir 500 mm falli í flokk A (ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum ), en í tilskipun 85/337/ EB er miðað við 40 km og 800 mm.“

Tilskipunin segir að ef þetta eru meira en 40 km og 800 mm þá eigi að fara í mat á umhverfisáhrifum. Löggjöfin, án þess að tilgreina það, setur 1 km og 500 mm. Enginn vissi af því, töldu að þetta væri innleiðingin.

Í öðru lagi: „Í lið 3.08 er miðað við 66 kV spennu á loftlínum vegna A flokks,“ — sem er mat á umhverfisáhrifum — „en í tilskipun 85/337 er miðað við 220 kV spennu.“

Enginn vissi af því, menn töldu að þetta væri innleiðingin og þannig fór þetta í gegn og er núna lög frá Alþingi.

Í þriðja lagi: „Í lið 11.04 er miðað við 50 þúsund persónueiningar varðandi skólphreinsivirki, til að framkvæmd falli í A flokk en í tilskipun 85/337 EB er miðað við 150 þúsund persónueiningar.“

Þetta er orðið að lögum. Enginn vissi af því, menn töldu að þetta væri innleiðingin.

Að endingu: „Í lið 3.10 og 3.11 er fjallað um leiðslur sem séu lengri en 1 km og 50 cm í þvermál eða meira falli í A flokk. Í tilskipuninni, sem frumvarpinu er ætlað að leiðrétta innleiðingu á, er hins vegar miðað við að slíkar leiðslur séu lengri en 40 km að lengd og 80 cm eða meira í þvermál.“

Virðulegur forseti. Hvað annað? Í hvaða öðrum ráðuneytum hafa einhverjir komið fram með texta sem hv. þingmenn héldu að væri innleiðing og er þess vegna orðið að lögum en það var gengið miklu lengra? Aftur: Við hefðum alveg getað sagt bara 1 m í staðinn fyrir 1 km, við ráðum því. Þetta er grafalvarlegt mál og aftur er ég ekki að biðja um það að við séum sammála um alla hluti heldur er ég að biðja um það og mun halda áfram að berjast fyrir því, eins og ég hef gert alla mína tíð, að sjá til þess, að þessir hlutir séu eins og þeir eiga að vera.

Virðulegur forseti. Ágætur þingmaður Viðreisnar, Guðbrandur Einarsson, fór mjög mikinn og ásakaði okkur Sjálfstæðismenn sem stöndum fyrir þessari umræðu og erum búin að vinna í þessu núna, og ég er sérstaklega að vísa til mín og hv. þm. Diljár Mistar Einarsdóttur en auðvitað er þeir miklu fleiri sem eru búnir vinna í þessum málum. Hann sagði: Þetta er allt ykkur að kenna, hvað eruð þið að tala um þetta, þið hafið gert þetta allt saman? Og: Við erum svo fylgjandi því að hér sé ekki mikið reglugerðarfargan vegna þess að við erum að hugsa um samkeppnishæfni þjóðarinnar. Þetta sagði hv. þingmaður Viðreisnar, sem er að vísu búinn að yfirgefa salinn eins og flestir þingmenn hérna. Mér finnst þetta vera orðinn ósiður, að einhverra hluta vegna hverfi þingmenn alltaf eftir ræður sínar, en það er annað mál. — Já, er það svo? Er Viðreisn algerlega á móti því að það sé verið að íþyngja íslensku atvinnulífi af því að það er slæmt fyrir samkeppnishæfnina? Ég skal alveg viðurkenna að ég tók þátt í því, áttaði mig ekki á því þó að ég hefði miklar efasemdir um það en maður gerði það í nafni stjórnarsamstarfs. Það var nú komið hérna á jafnlaunavottun sem er gríðarlega íþyngjandi fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og mjög erfitt að sjá hverju skilar. Alla vega hafa ekki fundist nein dæmi þess að þetta sé eitthvað sem er að hjálpa okkur í jafnréttisbaráttunni. (Gripið fram í.) Þetta er ekkert innleiðingarmál, þetta var bara baráttumál Viðreisnar. Og af hverju er ég að taka þetta fyrir hérna? Mér finnst bara að hv. þingmaður Viðreisnar megi aðeins hægja á sér þegar hann er hér með yfirlæti og talar yfir okkur sem erum að reyna að leiðrétta þessi mál og heldur því fram að hans flokkur sé alla daga að vinna að því að létta reglugerðarbyrðinni af lögaðilum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum til þess að þau standist samkeppni við aðrar þjóðir, því að sagan sýnir annað.

Hvað sem því líður, virðulegi forseti, þá þakka ég fyrir umræðuna. Ég vona hins vegar að þessu ljúki ekki hér, og þessu lýkur ekki hér. Við erum löngu byrjuð á vinnunni varðandi afhúðun í mínu í ráðuneyti og henni verður haldið áfram. Ég hvet hv. þingmenn og aðra hæstv. ráðherra til að fara í sambærilega vinnu því að þetta er ekki boðlegt og hefur mjög skaðleg áhrif á íslenskt efnahagslíf og íslenskan almenning.