154. löggjafarþing — 85. fundur,  12. mars 2024.

kvikmyndalög.

486. mál
[16:39]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd allsherjar- og menntamálanefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á kvikmyndalögum, nr. 137/2001 (framleiðslustyrkur til lokafjármögnunar). Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á kvikmyndalögum til samræmis við kvikmyndastefnu til ársins 2030 og í ljósi reynslu af framkvæmd laganna er mælt fyrir um nýjan styrkjaflokk Kvikmyndasjóðs sem ætlað er að styrkja gerð viðamikilla leikinna sjónvarpsþáttaraða og fela styrkirnir í sér kröfu um endurheimt verði tilteknum tekjuviðmiðum verkefnisins náð.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti og bárust umsagnir og greint er frá því nánar í nefndaráliti. Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið vill nefndin árétta sérstaklega: Nefndin fjallaði um styrki til leikinna sjónvarpsþáttaraða með skilyrði um endurheimt. Líkt og rakið er í greinargerð með frumvarpinu er markmið frumvarpsins einkum að styðja við framleiðslu, sölu og dreifingu leikinna sjónvarpsþáttaraða með vísan til aðgerðar í kvikmyndastefnu til ársins 2030. Með frumvarpinu er lögð til útfærsla á aðgerð kvikmyndastefnu og mælt fyrir um nýjan styrkjaflokk Kvikmyndasjóðs sem er ætlað að auka tækifæri til framleiðslu nýs sjónvarpsefnis. Í kvikmyndalögum er ekki gert ráð fyrir að styrkir séu veittir með skilyrði um endurheimt hluta tekna og er því með frumvarpinu lögð til sú breyting að Kvikmyndasjóði verði heimilt að veita styrki með svipuðum skilyrðum um endurheimt og Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn setur.

Í umsögn frá Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda segir að það sé jákvætt skref að kveða á um nýjan styrkjaflokk sem taki mið af þörfum innan greinarinnar. Þó er mikilvægi þess ítrekað að nýjum styrkjaflokki fylgi fjárframlög svo að hann gangi ekki á önnur verkefni innan sjóðsins. Nefndin tekur undir það og beinir því til ráðuneytisins að leitast verði við að nýr styrkjaflokkur komi ekki niður á öðrum verkefnum.

Í minnisblaði menningar- og viðskiptaráðuneytisins, dagsettu 25. janúar 2024, er bent á að fjárveitingar til Kvikmyndasjóðs koma fram í fjárlögum hvers árs og skiptast fjárframlög eftir tegundum verkefna. Nýr styrkjaflokkur verður fjármagnaður í samræmi við skiptingu sem ákvörðuð er af forstöðumanni í samráði við ráðuneytið og kvikmyndaráð. Þá munu endurgreiðslur renna óskiptar í Kvikmyndasjóð og efla sjóðinn og verði frumvarpið að lögum verða gerðar breytingar á reglugerð um Kvikmyndasjóð, nr. 229/2003, þar sem bætt verður við reglugerðina kafla um útfærslu nýs styrkjaflokks en drög að breytingu á reglugerðinni liggja fyrir í samráðsgátt stjórnvalda.

Nefndin fjallaði að auki um skil á kvikmyndum til Kvikmyndasafns Íslands en í umsögn Kvikmyndasafns Íslands er lagt til að lokastyrkur verkefna sem studd eru af Kvikmyndamiðstöð Íslands verði bundinn við skil á styrktri kvikmynd til Kvikmyndasafns Íslands. Kvikmyndasafn Íslands hefur gert samninga við Kvikmyndamiðstöð um að lokastyrkur sé ekki afhentur framleiðendum fyrr en mynd hafi verið skilað til Kvikmyndasafnsins en til framtíðar litið væri æskilegt að slíkt skilyrði yrði lögbundið. Skv. 8. gr. kvikmyndalaga, nr. 137/2001, er hlutverk Kvikmyndasafns Íslands að safna, skrásetja og varðveita íslenskar kvikmyndir, þar með talið að varðveita skilaskylt efni samkvæmt lögum um skylduskil til safna, nr. 20/2002.

Í minnisblaði menningar- og viðskiptaráðuneytisins til nefndarinnar kemur fram að í kvikmyndalögum sé kveðið á um almennan ramma þar sem ekki er vísað til styrkjaflokka, úthlutunarreglna eða framkvæmdar styrkveitingar. Slík atriði séu útfærð í reglugerð og svo í úthlutunarsamningum miðstöðvarinnar við styrkþega. Nefndin tekur undir mikilvægi þess að kvikmyndir skili sér án undantekninga til Kvikmyndasafns Íslands og telur jákvætt að fyrir liggi samningur þess efnis við Kvikmyndamiðstöð Íslands og að það sé skilyrði fyrir lokastyrk. Nefndin áréttar að í lögum um skylduskil til safna, nr. 20/2002, er kveðið á um skilaskyldu kvikmynda og jafnframt um heimild fyrir móttökusafn til að leggja á dagsektir skv. 21. gr. ef skilaskyldur aðili afhendir ekki verk.

Þá fjallaði nefndin um aðrar breytingar á kvikmyndalögum en með frumvarpinu eru jafnframt lagðar til breytingar á kvikmyndalögum í ljósi reynslu af framkvæmd laganna og kvikmyndastefnu til ársins 2030. Lagt er til að kveðið verði á um varðveislu kvikmyndaarfs á Íslandi með áherslu á varðveislu, miðlun og aukið aðgengi að kvikmyndaarfinum. Þá er lagt til að Kvikmyndamiðstöð Íslands efli kvikmyndafræðslu og þrói m.a. námsefni fyrir öll skólastig í samstarfi við Miðstöð menntunar og skólaþjónustu. Þá er kveðið á um hámarksskipunartíma forstöðumanns Kvikmyndasafns Íslands til samræmis við skipunartíma forstöðumanna annarra opinberra stofnana á sviði lista, t.d. Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, þjóðleikhússtjóra og safnstjóra Listasafns Íslands. Loks eru gjaldskrárheimildir kvikmyndasafns uppfærðar með tilliti til tæknibreytinga síðastliðin ár sem kalla á breytta nálgun í þjónustu safnsins. Nefndin telur framangreindar breytingar á lögunum til bóta.

Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt en undir nefndarálitið rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Bryndís Haraldsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Halldóra Mogensen, Líneik Anna Sævarsdóttir og Brynhildur Björnsdóttir. Halldóra Mogensen ritar undir álitið með fyrirvara.