154. löggjafarþing — 85. fundur,  12. mars 2024.

hagkvæmnisathugun á uppbyggingu Skógarstrandarvegar.

125. mál
[18:22]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bjarna Jónssyni fyrir framsöguna um þetta mál. Hv. þingmaður er jafnframt formaður umhverfis- og samgöngunefndar og í því ljósi velti ég fyrir mér stöðu stofnvega í vegakerfinu og forganginn sem ætti að vera á uppbyggingu þeirra umfram aðra vegi, hvernig hv. þingmaður sér þá í forgangsröðinni í samgönguáætlun. Þá vil ég spyrja hv. þingmann hvenær ætla megi að umfjöllun um samgönguáætlun verði lokið. Auðvitað velta allar framkvæmdir í samgöngum á því að það sé til staðar samgönguáætlun til að vinna eftir. Þess vegna leikur mér forvitni á að vita hvernig vinnunni miðar í umhverfis- og samgöngunefnd. Loks langar mig að spyrja hv. þingmann hvað felist í hagkvæmniathugun umfram það sem er í rauninni lagt til grundvallar við gerð samgönguáætlunar hverju sinni.