154. löggjafarþing — 85. fundur,  12. mars 2024.

hagkvæmnisathugun á uppbyggingu Skógarstrandarvegar.

125. mál
[18:26]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið en ég velti fyrir mér hvað hefur í rauninni tafið vinnuna við samgönguáætlun inni í nefndinni í vetur því að eins og fram kom í máli hv. þingmanns þá var hún lögð fram í haust og ég hef ákveðnar áhyggjur af því, miðað við allar fyrirliggjandi umsagnir, að nefndin falli á tíma við að taka á móti gestum og fjallað um málið. Þetta segi ég í ljósi reynslu minnar af umfjöllun um samgönguáætlun í umhverfis- og samgöngunefnd á síðasta kjörtímabili. En ég fagna orðum hv. þingmanns um stofnvegi. Það eru raunar tveir langir kaflar á stofnvegum sem á eftir að byggja upp í landinu. Það er annars vegar Bárðardalsvegur, sem er meira en 30 km langur malarkafli sem er aðkoma að Sprengisandi og náttúruperlum innst í Bárðardal, og svo er það Skógarstrandarvegurinn. Svo eru styttri kaflar á nokkrum stöðum og þeir ekki svo margir. Þar að auki er svo vegur um Jökulsárhlíð til Vopnafjarðar sem er samkvæmt samgönguáætlun verið að taka út sem stofnveg og ég hef raunar furðað mig á því. En það eru þá þessir vegir sem ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður muni beina sérstaklega sjónum að við afgreiðslu á samgönguáætlun.