154. löggjafarþing — 85. fundur,  12. mars 2024.

sjúkratryggingar.

129. mál
[18:30]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum, heilbrigðisþjónusta fyrir börn, aldraða og öryrkja. Flutningsmenn með mér á frumvarpinu er gjörvallur þingflokkur Flokks fólksins, þau Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson. Öllum þingmönnum var boðið að gerast meðflutningsmenn á þessu frumvarpi en skemmst frá því að segja að það þáði það enginn.

„1. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 20. gr. laganna: a. 1. mgr. orðast svo: Sjúkratryggingar taka til allra tannlækninga og tannréttinga aldraðra, öryrkja og barna yngri en 18 ára. Þá taka sjúkratryggingar til tannheilbrigðisþjónustu, tannlækninga og tannréttinga sem samið hefur verið um skv. IV. kafla vegna meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma.

b. Við bætist ný málsgrein sem orðast svo:

Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. skal ekki takmarka greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna tannheilbrigðisþjónustu, tannlækninga og tannréttinga barna. Jafnframt skal ekki takmarka greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna tannheilbrigðisþjónustu, tannlækninga og tannréttinga aldraðra og öryrkja sem hafa engar aðrar tekjur en lífeyri almannatrygginga sem og aðrar opinberar greiðslur sem tengjast örorku- og ellilífeyris réttindum.“

Ég ætla að endurtaka þetta svo það sé hafið yfir allan vafa: Hér erum við ekki að tala um að efnameiri einstaklingar, hvort heldur öryrkjar eða eldra fólk, séu að fá allt niður greitt hjá Sjúkratryggingum sem varðar þeirra tannheilbrigði og tannlækningar heldur erum við að miða við, eins og yfirleitt alltaf hjá Flokki fólksins, þá sem er haldið hér í sárri fátækt, í fátæktargildru órjúfanlegrar fátæktar. Það eru þeir einstaklingar sem lifa í rauninni á engu öðru en almannatryggingum og svo öðrum félagslegum stuðningi sem þeir eiga rétt á.

2. gr. frumvarpsins segir, mjög stutt og laggott, að lög þessi taki þegar gildi.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að frumvarpið var áður lagt fram á 153. löggjafarþingi, 57. mál, og er nú lagt fram að nýju óbreytt. Ein umsögn barst um frumvarpið á 153. löggjafarþingi og var hún frá Tannlæknafélagi Íslands, sem lýsti yfir stuðningi við framgöngu málsins.

Í lögum um sjúkratryggingar er kveðið á um að sjúkratryggingar taki til nauðsynlegra tannlækninga aldraðra, öryrkja og barna. Þá taka sjúkratryggingar einnig til nauðsynlegra tannlækninga og tannréttinga í ákveðnum tilvikum, þ.e. vegna afleiðinga alvarlegra meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma. Þá er greiðsluþátttaka sjúkratrygginga ekki skilyrðislaus. Ráðherra hefur heimild til að takmarka greiðsluþátttöku sjúkratrygginga með reglugerð. Almennt eru nauðsynlegar tannlækningar gjaldfrjálsar fyrir börn en öðru gegnir um tannréttingar. Sem dæmi má nefna að veittur er styrkur að fjárhæð 430.000 kr. ef föst tæki eru sett í báða góma, en almennt er kostnaður við slíkar tannréttingar talsvert umfram þá fjárhæð. Hér kemur fram að það sé um 700.000 kr. en það er langt frá því sem raunverulega gerist, ég held að við getum alhæft að það sé aldrei undir milljón sem það kostar að fara með barn í tannréttingar. Ég er hér með dæmi af ungum pilti sem er mér nákominn og það mun ekki verða undir 2 millj. kr. að laga það og við erum að tala um efri góm þar, ekki einu sinni báða, ekki einu sinni báðar hæðir, sjáið til. Það á að kosta um 2 millj. kr. þannig að þessi stuðningur, 430.000 kr., þar sem miðað er við báða góma, sem segir að þetta séu um 215.000 kr. á góm — það er svo langur vegur frá því að þessi styrkur brúi það bil sem þarna er, til raunverulega gjaldsins sem tekið er fyrir tannréttingarnar.

Við skulum átta okkur á því að svo mikil fjárútlát sem ég hér nefni hafa veruleg áhrif á fjárhag fátækra. Ég kýs að nota hugtakið fátæka. Við skömmumst okkar ekki fyrir að nota það hugtak, ég veit hvað það er að vera fátæk. Staðreyndin er sú að við erum alltaf að níðast á fátæku fólki. Við erum alltaf, löggjafinn hér, ríkisstjórn eftir ríkisstjórn, að mismuna fólki eftir efnahag. Varla er neitt því ljótara en að mismuna þannig eftir efnahag að það skuli bitna á börnunum, að börnin skuli ekki geta notið og fengið þá nauðsynlegu læknis- og heilbrigðisþjónustu sem þörf krefur.

Hvað skyldi nú aftur segja í 76. gr. stjórnarskrárinnar? Við getum aldrei endurtekið það nógu oft. Þar skal öllum með lögum tryggður réttur til aðstoðar vegna örorku, sjúkdóma, öldrunar og hverju öðru sem er sem þarfnast stuðnings og aðstoðar. Og hvað skyldi nú segja í 2. mgr. og 3. mgr. 76. gr. sem hvor tveggja lýtur að börnum? „Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.“ Ef það er ekki að brjóta stjórnarskrá þegar efnalitlum foreldrum er stillt þannig upp við vegg að þeir geta ekki með nokkru lifandi móti aðstoðað börn sín til að fá tannlæknaþjónustu, tannréttingar eða hvað eina annað sem er sem lýtur að velferð þeirra og heilbrigði, ef það er ekki brot á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, þá veit ég ekki hvað gerir það. En hér virðist það vera orðin lenska að horfa fram hjá okkar grundvallarlögum og hvernig þau setja í rauninni lagaáskilnað á löggjafann um að setja reglur sem taka utan um samfélagið í heild sinni og þarna sérstaklega þá sem þurfa á hjálp að halda. Samfélaginu ber skylda til að tryggja að öll börn fái þá heilbrigðisþjónustu sem þau þurfa án tillits til efnahags.

Það kemur sífellt betur í ljós hve mikilvæg tannheilsa er. Þá getur það haft keðjuverkandi neikvæðar afleiðingar ef ekki er gripið til réttra aðgerða á réttum tíma. Því er lagt til að framvegis verði öll tannheilbrigðisþjónusta í þágu barna gjaldfrjáls. Öll tannlæknaþjónusta, ekki bara sum, á að vera gjaldfrjáls fyrir börn. Við eigum aldrei að mismuna börnum vegna efnahags. Aldrei.

Stór hópur fullorðinna býr einnig við slæma tannheilsu vegna þess að kostnaðurinn er of mikill og tekjur þeirra of lágar. Þeir öryrkjar og eldri borgarar sem reiða sig alfarið á lífeyri almannatrygginga eiga nógu erfitt með að ná endum saman, ekki satt? Þeim er nánast gert ómögulegt að lifa eðlilegu lífi í samfélaginu án þess að þurfa að hokra og spara við sig hvern einasta dag. Það er ekkert fjárhagslegt svigrúm til þess að leita sér tannlækninga. Sjúkratryggingar greiða hluta kostnaðar en fólk í þessari stöðu sem ég hér tala um hefur einfaldlega ekki efni á því að greiða sinn hlut. Hugsið ykkur. Hér get ég talað af eigin reynslu. Ég hafði ekki efni á að fara til tannlæknis í tíu ár og það var ekki fyrr en ég varð öryrki á ofurlaunum sem ég hafði ráð á að leita mér tannlækninga. Hvers vegna skyldi okkur vera látið líða svona í samfélaginu, við þráum að geta t.d. leitað okkur tannlækninga en okkur er gert það ómögulegt? Það er alger ómöguleiki nema kannski að taka smálán. Er það ekki akkúrat fólkið eins og ég var, áður en ég varð öryrki á ofurlaunum, og vinur minn, eldri borgari sem eingöngu er með greiðslur frá Tryggingastofnun, er þetta ekki sá hópur fólks sem leiðist út í það að taka smálán eins og ólánsamir unglingar sem hafa leiðst út á brautir fíknar? Sjúkratryggingar greiða hluta kostnaðar en fólk í þessari stöðu hefur einfaldlega ekki efni á að brúa bilið. Það er þess vegna sem fátækt fólk, sem haldið er hér í rammgerðri fátæktargildru sem það kemst ekki úr, getur ekki leitað sér tannlækninga. Hugsið ykkur.

Við afmörkum þetta frumvarp við þá einstaklinga sem eingöngu eru með framfærslu frá almannatryggingum. Það vita það allir sem vita vilja, stjórnvöld vita það, ríkisstjórnin og allir vita það að þessir einstaklingar eru það fátækir að hverjar 10.000 kr., 20.000 kr., 50.000 kr. er 10.000, 20.000 og 50.000 kr. of mikið. Þau hafa ekki ráð á því, þau geta ekki veitt sér það. Þau horfa á tennurnar skemmast, horfa á þær losna, horfa á sig missa tennurnar sínar og ég ætla ekki að segja hvað tekur þá við, að þurfa að fá sér falskar og allt það og hafa ekki heldur efni á því. Þvílíkt samfélag.

Núverandi löggjöf tryggir ekki með nægjanlegum hætti að einu eða neinu leyti að við getum öll nýtt okkur tannlæknaþjónustu. Nú skulum við snúa okkur að núverandi löggjöf sem tryggir ekki einu sinni með nægjanlegum hætti að börn sem fæðast með skarð í vör eða klofinn góm njóti stuðnings frá sjúkratryggingum til að greiða niður kostnað vegna viðhlítandi tannlækninga og tannréttinga. Nei, ekki heldur þau. Það er vegna þess að núgildandi löggjöf um tilteknar aðgerðir gerir ekki ráð fyrir því að þær séu nauðsynlegar. Þetta er í rauninni sárara en tárum taki. Ég skil bara ekki í því að við skulum ekki, allur löggjafinn eins og hann leggur sig nákvæmlega hérna, koma í veg fyrir það að fátæk börn fái ekki tannlæknaþjónustu og koma í veg fyrir það að öryrkjar og eldra fólk sem er sköffuð þessi lúsarframfærsla sem kemur frá almannatryggingum fái ekki þessa þjónustu. Fólk er sett við það borð að horfa á tennurnar sínar skemmast eða hreinlega detta úr þeim af því að þeim er gert ómögulegt að leita sér tannlækninga. Hvers lags eiginlega stjórnvöld eru þetta, virðulegi forseti? Ég bara spyr, þó að ég viti að fátt verði um svör.

Hópur barna kemst ekki í viðhlítandi aðgerðir vegna þess hversu hár kostnaðurinn er við þær aðgerðir sem hér er verið að óska eftir að verði greiddar að fullu. Jafnvel meðfæddur galli, hugsið ykkur, eins og klofinn gómur þar sem nauðsynlega þarf að grípa strax inn í til að taka utan um barnið og hjálpa því — nei, þú skalt bara hafa það eins og það er og vera óheppinn að vera fátækur, sjáðu til. Þú getur bara verið með þinn skakka munn.

Mig langar að vísa hér í 1. gr. frumvarpsins þar sem er kveðið á um að sjúkratryggingar taki til allra tannlækninga og tannréttinga barna, allra, ekki bara sumra heldur allra tannlækninga og allra tannréttingar barna. Ekki er því lengur skilyrði að þær tannlækningar og tannréttingar séu nauðsynlegar í orði eða á blaði, né að samið hafi verið um þær tannréttingar sérstaklega samkvæmt IV. kafla laga um sjúkratryggingar.

Lagt er til að fella út orðin „nauðsynlegra“ og „alvarlegra“ í 20. gr. laga um sjúkratryggingar, það er lagt til að við tökum út allt matskennt en við látum barnið njóta vafans. Það er falleg löggjöf. Barnið á að njóta vafans. Eins og kemur hér fram í skýringum með 1. gr. er með þessari breytingu á 1. mgr. 20. gr. laga um sjúkratryggingar ekki lengur þörf á að meta hvort meðfæddur galli eða afleiðing slyss eða sjúkdóms sé nógu alvarleg eða hvort meðferð í hverju tilviki fyrir sig sé nauðsynleg heldur munu sjúkratryggingar taka til tannlækninga og tannréttinga vegna þeirra.

Loks er kveðið á um að ekki megi takmarka greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna tannheilbrigðisþjónustu, tannlækninga og tannréttinga barna. Breytingin felur það í sér að ekki verður heimilt að takmarka greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í reglugerð. Hér er ráðherra algerlega settur stóllinn fyrir dyrnar og hann getur ekki takmarkað greiðslur sjúkratrygginga að einu eða neinu leyti þegar kemur að því að leita aðstoðar vegna tannheilsu barna. Ég endurtek það og ég get aldrei endurtekið það nógu oft: Börnin eiga alltaf, alltaf að njóta vafans. Það eru engar krónur og engir aurar sem geta metið börnin að verðleikum. Það á aldrei að horfa í aurinn þegar við erum að fara að hjálpa börnum með tannheilsu þeirra frekar en nokkuð annað.

Maður er orðinn langeygur eftir því að sjá raunverulegar aðgerðir hér, lið fyrir lið, hvernig við raunverulega tökum utan um samfélagið eins og samfélagið er, hvernig við tökum utan um þá sem mest þurfa á okkur að halda sérstaklega. Sýnum það af virðingu og mismunum þeim ekki vegna efnahags. Mér finnst í rauninni holur hljómur í þeim stjórnmálamönnum sem segja hér fyrir hverjar einustu kosningar að þeir ætli að gera allt hvaðeina fyrir alla. Þeir byggi á jöfnuði og réttlæti, samkennd og samhygð með borgaranum. Við skulum lofa verkunum þeirra að tala. Þið hljótið öll að hafa séð hvernig verk þau eru að vinna. Verkin segja ekki ósatt. Dæmum þau af verkunum sem þau vinna og ekki gleyma því hvernig verkin þeirra voru áður þó að þau séu ekki í ríkisstjórn í dag. Við skulum ekki gleyma því.

Ég ítreka að það var ekki einn einasti þingmaður í öðrum flokkum sem þáði það að vera meðflutningsmaður á þessu frumvarpi, ekki einn. Hér er enginn sem er að berjast með okkur í Flokki fólksins fyrir því að börnum sé ekki mismunað eftir efnahag. Það er enginn, ekki einn einasti nema við í Flokki fólksins. Við erum skjöldur og hlíf þeirra sem eiga bágt í samfélaginu og því fyrr sem fólkið okkar áttar sig á því, því fyrr munum við sjá raunverulegar breytingar til hins betra.