154. löggjafarþing — 86. fundur,  18. mars 2024.

Fyrirhuguð kaup Landsbankans á TM.

[15:11]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Forseti. Þessi ríkisstjórn virðist vera stjórnlaus og staðráðin í að læra ekkert af síðustu bankasölu. Bara núna fyrir helgi samþykkti ríkisstjórnin að selja restina af Íslandsbanka án þess að síðasta sala hafi verið gerð upp að fullu en á sama tíma berast tíðindi af 29 milljarða kr. tilboði Landsbanka Íslands, ríkisbankans, í TM, stórt fyrirtæki á fjármálamarkaði. Þá, eftir sex mánaða kaupferli sem Landsbankinn hefur tekið þátt í frá upphafi, rýkur hæstv. fjármálaráðherra á Facebook og skrifar færslu um að þessi viðskipti verði ekki að veruleika með hennar samþykki nema Landsbankinn verði samhliða settur í söluferli — eins og hún hafi ekkert vitað hvað hafi verið í gangi. Þá fyrst ætlar hún að heyra í Bankasýslunni sem öllu virðast ráða.

Hver er stefnan, forseti? Hvað vissi hæstv. forsætisráðherra og hvað hefur verið rætt um þessi mál í ríkisstjórn? Tala hæstv. ráðherrar ekki saman hér um tugmilljarða kaup eða sölu á stórum fjármálafyrirtækjum sem snerta ríkissjóð? Eru undirstofnanir ráðherra bara alltaf á ákveðinni sjálfstýringu? 29 milljarðar kr. er tvöfaldur hagnaður Landsbankans á góðu ári, helmingur af kostnaði ríkisins við uppkaup á íbúum Grindvíkinga. Þetta er ekki bara einhver daglegur rekstur þar sem ríkisstjórnin getur skýlt sér á bak við armslengdarsjónarmið.

Svo vaknar auðvitað spurningin: Ætluðum við ekki vera búin að loka Bankasýslu ríkisins? Hvað er eiginlega í gangi hérna? Þetta stjórnleysi og samskiptaleysi hæstv. ráðherra er farið að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir ríkissjóð og það er ekki að sjá að það séu neinir fyrirvarar um að ráðherrar hafi yfir höfuð heimild til að rifta þessu tilboð upp á 29 milljarða sem þegar hefur verið gert. Ég hlýt að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Stendur til að grípa inn í og stöðva þessi kaup Landsbankans á TM? Hvernig verður það þá gert? Eða verður farið í að einkavæða Landsbankann eins og hæstv. fjármálaráðherra er að kalla eftir?