154. löggjafarþing — 86. fundur,  18. mars 2024.

Meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

[15:27]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur fyrir fyrirspurn um það sama mál og við höfum áður rætt í þessum fyrirspurnatíma. Ég ætla að fá að ítreka það sem ég hef áður sagt: Við höfum margoft sagt að það standi ekki til að selja hlut í Landsbankanum á þessu kjörtímabili, bæði í þeirri yfirlýsingu sem hv. þingmaður vitnar til og síðar. Við höfum líka sagt á fyrri stigum að ekki stæði til að selja hlut í Landsbankanum fyrr en lokið hefði verið við söluferli á Íslandsbanka. Því er ekki lokið þannig að þessi orð standa. Ég ítreka líka afstöðu minnar hreyfingar sem er að Landsbankinn eigi að vera í eigu almennings, á sama tíma og við höfum stutt það að lokið verði við að selja eignarhlut í Íslandsbanka.

Hvað varðar Bankasýslu ríkisins er það hárrétt hjá hv. þingmanni að það hefur verið legið yfir þessu fyrirkomulagi um hvernig best sé farið að því að tryggja þau meginsjónarmið sem við höfum viljað standa fyrir. (Forseti hringir.) — Ég kem betur inn á þetta í seinna svari.