154. löggjafarþing — 86. fundur,  18. mars 2024.

Eigendastefna ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki.

[15:43]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Það er mjög áhugavert að fylgjast með því sem bæði hæstv. viðskiptaráðherra segir og hæstv. forsætisráðherra. Nú er það þannig að ríkið heldur á stórum eignarhluta í bankakerfinu og þessi atburðarás sem er að birtast okkur núna leiðir í ljós að við höfum ekki hugmynd um, þrátt fyrir eigendastefnu, hver áform ríkisstjórnarinnar eru. Menn tala algerlega í austur og vestur. Fjármálaráðherra sagði í gær að kaup ríkisbankans á tryggingafélagi, þessa ríkisvæðingu sem við erum að horfa upp á, yrði að stöðva nema að rætt yrði um sölu Landsbankans samhliða. Nú er hæstv. forsætisráðherra búinn að segja að það standi ekki til að selja Landsbankann nema mögulega þegar búið verður að selja Íslandsbanka og svo heyrum við þetta hjá hæstv. viðskiptaráðherra núna. Því klórar maður sér svolítið í kollinum yfir því hver næstu skref raunverulega verða.

Það sem mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra um er þetta: Þegar hæstv. fjármálaráðherra stígur inn í þetta í gærkvöldi eins og raunin varð (Forseti hringir.) og kemur með þessa meldingu um að það þurfi að ræða um mögulega sölu á Landsbankanum í samhengi við þessa ríkisvæðingu á TM, (Forseti hringir.) er þá hæstv. fjármálaráðherra að ganga gegn sjálfstæði stjórnar Landsbankans?