154. löggjafarþing — 86. fundur,  18. mars 2024.

Úrgangsmál og hringrásarhagkerfið.

[15:53]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma hér og vera við þessa umræðu og taka þátt í henni með mér en hún er um úrgangsmál og hringrásarhagkerfið. Ég lagði þessa fyrirspurn fram í nóvember síðastliðnum og það var eftir að enn einu sinni heyrðust fréttir af því að urðun skyldi haldið áfram í Álfsnesi. Allri urðun átti að hætta þar 31. desember 2020. Það var svo framlengt til 31. desember 2023 en í nóvember síðastliðnum var skrifað undir eigendasamkomulag um að urðun skyldi haldið áfram, þ.e. urðun á úrgangi sem ekki væri lífrænn úrgangur eða baggaður úrgangur. Sú urðun gæti farið fram í síðasta lagi til 2030. Ástæðan er auðvitað sú að það hefur ekki fundist neinn urðunarstaður því enginn vill hafa ruslahaug í bakgarðinum sínum. En það er nú þannig að um 3,5 milljónir tonna af sorpi liggja í Álfsnesi rétt við íbúahverfi og rétt við vinsælt útivistarsvæði hér á höfuðborgarsvæðinu.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra út í heildarsýn á þessum málaflokki og þær spurningar sem ég hef lagt fram eru: Hver er framtíð úrgangsmála og hringrásarhagkerfisins á Íslandi? Er æskilegt að senda úrgang úr landi? Hvernig getum við stutt við endurvinnslu og endurnýtingu úrgangs hér á landi? Geta sveitarfélögin staðið undir þeim skuldbindingum sem lög um meðhöndlun úrgangs gera ráð fyrir og er það fyrirkomulag best til þess fallið að ná árangri í þróun hringrásarhagkerfisins?

Eins og ég sagði áðan mun urðun halda áfram í Álfsnesi en þó með töluverðum breytingum. Það er auðvitað mikilvægt að við séum ekki að urða lífrænan og baggaðan úrgang því að af því er mikil mengun, auk þess sem það er auðvitað mjög óæskilegt fyrir hringrásarhagkerfið. En á sama tíma erum við að flytja baggaðan úrgang úr landi með þeim kolefnissporum sem því fylgir svo hægt sé að brenna þann úrgang einhvers staðar í Evrópu og framleiða raforku. Á sama tíma brennum við dísilolíu fyrir raforkuver t.d. á Bolungarvík. Þetta er auðvitað algjörlega óásættanlegt út frá hugmyndum okkar um hringrásarhagkerfið.

Til að vera líka á jákvæðu nótunum þá skulum við hafa það í huga að með fjárfestingu í GAJU, gas- og jarðgerðarstöðinni í Álfsnesi, hefur náðst gríðarlegur árangur í loftslagsmálum. GAJA dregur úr losun sem nemur um 20.000 tonnum á ári og það jafngildir því að taka um 10.000 fólksbíla af götunum ef við notum þann samanburð. Endurnýtingarhlutfallið í Sorpu er að aukast mikið og urðun er að dragast töluvert saman og mun auðvitað dragast enn meira saman á þessu ári með þeim ákvörðunum sem voru teknar um að lífrænn úrgangur og baggaður úrgangur fari eitthvað annað.

Ég er að kalla eftir þessari umræðu hér við hæstv. ráðherra vegna þess að ég óttast að okkur vanti heildarsýn á málaflokkinn. Ég held að það hafi verið gott skref þegar við settum heildarreglugerð um það hvernig við ættum að flokka sorp á heimilum því að við skulum líka átta okkur á því að það er flóknasti farvegurinn. Það er svo mikið sambland af alls konar úrgangi þar og þess vegna er eðlilegt að við flokkum sorp. En íbúar þurfa líka að trúa því að það sé einhver raunverulegur farvegur fyrir það sorp sem þeir flokka. Það er auðvitað óþolandi fyrir fólk að pirrast yfir því að þurfa að drekka kókómjólk með papparöri og vita svo að fernan verði svo bara brennd einhvers staðar úti í Evrópu með tilheyrandi kolefnisspori. Þá veltir fólk því auðvitað fyrir sér: Bíddu, til hvers var farið í þessa vegferð? Þannig að á sama tíma og við þurfum að uppfræða íbúa landsins um að það skipti máli hvað við gerum í flokkunarmálum og í umhverfismálum þá þurfum við auðvitað líka að sjá til þess að farvegirnir séu skýrir og að hlutirnir skili sér raunverulega í endurvinnslu helst, en ef ekki endurvinnslu þá veltir maður fyrir sér hvort það væri sniðugra að við værum þá bara að brenna þetta hér heima á Íslandi og framleiða raforku.

Ég velti því líka fyrir mér hvort sveitarfélögin geti staðið undir þessum skuldbindingum. Af reynslu minni, hafandi tekið þátt í sveitarstjórnarmálum þar sem er búið að ræða t.d. um nýjan urðunarstað í nokkra áratugi og enn hefur ekki náðst árangur, þá held ég að það sé fullreynt á þeim vettvangi. Ég velti því þar af leiðandi upp hvort það sé eðlilegt að sveitarfélögin í landinu eigi að hafa þessa yfirsýn og eigi að stýra þeim málaflokki er lýtur að endurvinnslu og hringrásarhagkerfinu eða hvort það sé hlutverk okkar hér á Alþingi að marka þessa stefnu og sjá til þess (Forseti hringir.) og hvetja til þess að það verði einhver nýsköpun í þessum fræðum og að meira og meira hlutfall af sorpinu okkar verði endurunnið hér á Íslandi.