154. löggjafarþing — 86. fundur,  18. mars 2024.

Úrgangsmál og hringrásarhagkerfið.

[15:58]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir að hefja þessa umræðu. Það er mjög ánægjulegt hvað hv. þingmaður er áhugasamur um þessi mikilvægu mál. Bara til að setja þetta í samhengi þá er samkvæmt nýlegri rannsókn hagkerfið á Íslandi einungis 8,5% hringrænt. Línulegt hagkerfi er því enn ráðandi og mikil tækifæri fólgin til verðmætasköpunar í virku hringrásarhagkerfi. Stundum er sagt að stjórnvöld, fjármagn, fólk, fyrirtæki og nýsköpun séu helstu kraftarnir sem drífi áfram innleiðingu hringrásarhagkerfisins og það held ég að sé rétt.

Í úrgangsmálum á Íslandi er unnið eftir stefnu sem gefin var út sumarið 2021. Yfirskriftin er Í átt að hringrásarhagkerfi. Segja má að Íslendingar standi í miðri ánni við að koma meðhöndlun úrgangs í sambærilegt horf og í þeim ríkjum Evrópu sem standa fremst í málaflokknum. Mikið hefur áunnist frá því að opin brennsla úrgangs og urðun voru allsráðandi fyrir um 30 árum síðan. Endurvinnsla þekktist varla. Síðan þá hefur hlutfall förgunar dregist stórlega saman og árið 2021 fóru 14% af öllum úrgangi sem féll til hér á landi til förgunar en 86% til endurnýtingar. Hlutfall förgunar á kostnað endurnýtingar er hæst þegar kemur að heimilisúrgangi. 42% heimilisúrgangs fóru til förgunar árið 2021 en heimilisúrgangur var tæplega fimmtungur af þeim úrgangi sem féll til.

Það kemur ekki á óvart að förgunarhlutfall heimilisúrgangs sé hærra en rekstrarúrgangs en heimilisúrgangur er jafnan talinn einn flóknasti úrgangsstraumurinn að meðhöndla. Hann verður til hjá mörgum og smáum uppsprettum og er því dreifður, flókinn að samsetningu og misleitur. Á síðastliðnum árum hafa þó verið stigin stór skref í átt að betri meðhöndlun heimilisúrgangs og minni förgun hans. Þar ber helst að nefna setningu og framkvæmd laga sem kölluð hafa verið hringrásarlögin, nr. 103/2021. Með lögunum er flokkun heimilisúrgangs gerð að skyldu og gerð krafa um sérstaka söfnun helstu flokka heimilisúrgangs í því skyni að tryggja sem hreinasta úrgangsstrauma til endurvinnslu og annarrar endurnýtingar. Frá samþykkt laganna hafa sveitarfélög, atvinnulíf og almenningur unnið hörðum höndum að því að koma þessum ráðstöfunum til framkvæmdar. Eins hefur aukin brennsla úrgangs þýðingu þegar kemur að því að draga úr urðun. Brennsla með orkunýtingu er hærra sett en urðun í forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs, svokölluðum úrgangsþríhyrningi. Til skamms tíma a.m.k. getur því verið farsælli lausn að flytja blandaðan heimilisúrgang úr landi til brennslu með orkunýtingu fremur en að urða þennan úrgang hér heima. Til lengri tíma litið er hins vegar áhættan sem fylgir því að treysta á útflutning líklega ekki ásættanleg.

Til skoðunar hefur verið að byggja upp innviði til að brenna úrgang hér heima til orkunýtingar. Árið 2020 lét ráðuneytið vinna greiningu á þörf fyrir sorpbrennslu. Árið 2021 var unnið forverkefni í framtíðarlausn í brennslumálum á vegum byggðasamlaganna á Suðvesturlandi og ráðuneytisins og nú er rétt að ljúka framhaldsverkefni Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ráðuneytisins sem felur í sér ítarlegan samanburð tveggja kosta við uppbyggingu innviða til brennslu úrgangs. Samtal er þegar hafið milli þessara sömu aðila um að stíga næstu skref í málinu og ræða stofnun félags um uppbyggingu.

Almennt gilda þær meginreglur um meðhöndlun úrgangs að hún á að fara fram sem næst uppsprettu hans og þjóðin á að vera sjálfri sér nóg eins og mögulegt er varðandi innviði til fullnægjandi meðhöndlunar úrgangs sem hér fellur til. Best er ef hægt er að skapa verðmæti úr úrgangi sem næst upprunastað en jafnframt verður að taka tillit til þess að við erum fámenn og þótt hér falli til mikill úrgangur á hvern íbúa er heildarmagnið lítið í alþjóðlegu samhengi. Hagkvæmnissjónarmið verða því einnig að koma til álita í þessu sambandi. Atvinnulífið hefur m.a. bent á nauðsyn þess að auka framboð innlendra endurvinnslukosta fyrir flokkaðan úrgang. Þessu hafa stjórnvöld einnig stuðlað að, svo sem með því að koma á fót sérstökum hringrásarklasa sem ætlað er að vera félagsskapur íslenskra framsækinna fyrirtækja sem starfa í hringrásarkerfinu og vinna að því að breyta úrgangi í auðlindir. Jafnframt hefur ráðuneytið staðið að úthlutun beinna styrkja til hringrásarverkefna, styrkt og tekið þátt í hringrásarverkefni í gegnum aðgerðir í byggðaáætlun, svo sem uppbyggingu líforkuvers á Norðurlandi. Eins hefur Úrvinnslusjóður, sem er stofnun ráðuneytisins, beitt hagrænum hvötum framlengdrar framleiðendaábyrgðar til að styðja við endurvinnslu úrgangs innan lands.

Mikilvægt er að hafa í huga að hringrásarhagkerfið tekur til fleiri þátta en meðhöndlunar úrgangs. Meðhöndlun úrgangs, aukin endurvinnsla og förgun eru afar mikilvægur þáttur en hringrásarhagkerfið felst ekki síður í að beita deiliþjónustu, endurnotkun og fleiri leiðum til að auka nýtni og draga úr myndun úrgangs. Jafnframt er sjálfbær hönnun og framleiðsla á vörum einn lykilþáttanna. Líftími og gæði vara ráðast oft strax á hönnunarstigi og stundum er sagt að 80% af umhverfisáhrifum vöru ráðist af hönnun hennar. Ég hef þess vegna lagt áherslu á forystuhlutverk atvinnulífsins þegar kemur að myndun hringrásarhagkerfis hér á landi.

Sveitarfélögin eru jafnframt í forystuhlutverki en þau fara að meginstefnu með stjórnsýslu úrgangsmála. Það er sambærilegt hlutverk og sveitarfélög eða sambærileg staðbundin stjórnvöld fara með í nágrannaríkjunum enda er þjónusta við meðhöndlun úrgangs, bæði nærþjónusta og grunnþjónusta, afar mikilvæg til að koma í veg fyrir mengun og heilsuógn. Þjónustan þarf að vera í föstum skorðum og þess eðlis að hún má ekki falla niður. Jafnframt má horfa til hlutverks sveitarfélaga varðandi skipulag. Skipulagsvaldið er einn af hornsteinum sjálfstjórnarréttar sveitarfélaganna. Það er rökrétt að slíku valdi fylgi um leið ábyrgð á stjórnsýslu úrgangsmála en ákvarðanir um skipulag sveitarfélaga hafa mikið að segja um hvaða úrgangur muni falla til í sveitarfélögunum og í hvaða magni. (Forseti hringir.)

Virðulegur forseti. Ég næ ekki að klára þetta allt saman en kem kannski að því á eftir úr því að forseti er svona harður á bjöllunni.