154. löggjafarþing — 86. fundur,  18. mars 2024.

Úrgangsmál og hringrásarhagkerfið.

[16:11]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Undir lok ræðu sinnar minntist hæstv. ráðherra á það sem mér finnst kannski mega færa framar í umræðuna, sem eru forvarnirnar vegna þess að þær eru auðvitað í úrgangsmálum eins og eiginlega öllu öðru öflugasta verkfærið. Það að koma í veg fyrir að úrgangur myndist er miklu hagkvæmara og skynsamlegra en nokkuð annað. Þess vegna skiptir máli, eins og hæstv. ráðherra segir, að virkja ekki bara forystuhlutverk atvinnulífsins heldur að setja það í metnaðarfullan og skýran ramma. Þar langar mig að horfa til vina okkar í Brussel sem á síðasta ári náðu saman um réttinn til viðgerða, tilskipun sem vonandi skilar sér til okkar í gegnum EES-samninginn og snýst um það að fólk hafi aðgang að viðgerðarþjónustu, að það sé byggt inn í hluti að það sé auðvelt að gera við þá og að framleiðendum sé skylt að þjónusta eldri hluti lengur en þeir gera í dag þannig að við þurfum ekki að kaupa nýtt þegar eitthvað fer að bila hjá okkur. Ef þetta er ekki á leiðinni í gegnum EES-samninginn þá hvet ég hæstv. ráðherra til að taka sig til og fara að vinna slíkt regluverk að sínu frumkvæði hér á landi.

Þar sem vantar hins vegar miklu meira hér á landi eru leiðir til að gera almenningi auðveldara að taka þátt í hringrásarhagkerfinu. Hæstv. ráðherra nefndi deilihagkerfið. Þar eigum við náttúrlega mjög skýrt og einfalt dæmi sem væri hægt að styðja, Hringrásarsafnið sem er samstarfsverkefni Borgarbókasafnsins og Munasafns. Þú mætir á bókasafnið og færð bara lánaða höggborvél þannig að við þurfum ekki öll að eiga höggborvélar fyrir þetta eina skipti á tveggja ára fresti sem við borum í vegg. Nú eða fjárhagslegir hvatar til þess að fólk leiti frekar með hluti í viðgerð en að kaupa nýja. Þar eigum við fyrirmyndir í löndum víða um heim og við eigum meira að segja tilbúið frumvarp sem liggur hér fyrir þingi, flutt af þingmönnum úr Pírötum og Samfylkingu, um svokallaða hringrásarstyrki til að fólk fái bara pening endurgreiddan fyrir það sem það leggur fram til viðgerðarþjónustu. (Forseti hringir.) Svona mætti lengi telja.

Mig langar rétt í lokin að nefna upplýsingarnar. Hvað með að fara að franskri fyrirmynd og skikka alla framleiðendur (Forseti hringir.) til að merkja þá vöru sem er seld í búðum út frá því hversu auðvelt er að gera við hana? Þá getur fólk verslað það sem er auðveldast að standa sig vel með.