154. löggjafarþing — 86. fundur,  18. mars 2024.

Úrgangsmál og hringrásarhagkerfið.

[16:35]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu sem hér hefur átt sér stað. Hún hefur verið mjög góð og mjög margt áhugavert komið hér fram. Ég vona að það verði eitthvert framhald af þessu, þá mögulega í gegnum umhverfis- og samgöngunefnd eða þá á borði hæstv. umhverfisráðherra sem hefur þetta með höndum dagana langa. Af því að það er nú ekki mikill tími í seinni ræðu þá langar mig til þess — ef hæstv. ráðherra hefur tíma til að koma inn á í lokaræðu sinni sjónarmið er varða mál sem er nátengt og hefur verið nefnt hér áður, þ.e. holræsatilskipunina og þann kostnað sem henni fylgir. Hvort hæstv. ráðherra sé búinn að skoða það mál ofan í kjölinn eins og það liggur núna, auðvitað er það ekki komið af færibandinu, og hver afstaða hæstv. ráðherra er til þeirrar innleiðingar, hvort hún henti hinum íslensku hagsmunum og þeim landfræðilegu og umhverfislegu skilyrðum sem við búum við eða hvort núna, meðan vonandi er enn tími til, sé verið að skoða einhverjar leiðir sem draga úr kostnaði án þess að við gefum um of eftir í þeim árangri sem næst við meðhöndlun frárennslis. Mig langaði að skilja þetta eftir hérna við lok þessarar umræðu.