154. löggjafarþing — 87. fundur,  18. mars 2024.

gervigreind.

648. mál
[16:45]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir fyrirspurnina og vona að ég valdi hv. þingmanni ekki vonbrigðum. Hann kom hér fullur tilhlökkunar að bíða eftir svörum sem hér koma og ég mun reyna að gera mitt besta.

Ríkisstjórnin hefur samþykkt leiðbeiningar fyrir opinbera aðila sem hyggjast nýta gervigreind í sinni starfsemi. Efninu er ætlað að stuðla að því að opinberir aðilar geti nýtt tækifæri gervigreindar til að bæta opinbera þjónustu, auka hagkvæmni hennar og skilvirkni í störfum með ábyrgum, gagnsæjum og áreiðanlegum hætti. Opnað hefur verið vefsvæði með efni sem opinberum aðilum er bent á að líta til. Vefurinn verður í stöðugri þróun og er hægt að koma með ábendingar beint í gegnum hann. Það er áhugavert að í könnun frá nóvember 2023, sem fjármála- og efnahagsráðuneytið lét gera, kom fram að 43% þeirra ríkisaðila sem svöruðu könnuninni nýta gervigreind og 80% sjá möguleika til umbóta í starfseminni með notkun gervigreindar.

Hv. þingmaður vísar til þess hver tækifærin eru og ég held að flestir séu sammála um að þarna séu tækifæri í bættri þjónustu við almenning, skilvirkni og lækkun kostnaðar, upplýstri og bættri ákvarðanatöku og betri málsmeðferð og eftirliti. Hins vegar liggur alveg fyrir, og ég veit að hv. þingmaður þekkir það mjög vel, að það eru ýmsar áskoranir. Í fjölmiðlum eru náttúrlega mjög áberandi ýmis mistök sem eru gerð. Jafnvel fremstu tæknirisar heims, eins og Google, hafa lent í því og hafa verið að reyna að leiðrétta þau mistök sem voru gerð í fortíðinni þegar kemur að gervigreind, sem ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður þekki, með þeim hætti að það hefur skapað önnur vandamál. Það var t.d. mjög áberandi á vefmiðlum hér að þegar þú spurðir einhvern af þessum aðilum sem ég kann ekki að nefna hvað heita — gervigreindarvélar? — um þjóðernissósíalista þá komu myndir af þeim sem áttu augljóslega ekki við rök að styðjast. Þeir voru þá af allra handa kynþáttum en eins og við þekkjum byggir sú ógeðfellda hugmyndafræði á yfirburðum eins kynstofns eins og það er nú kallað. Fleiri dæmi mætti nefna. Þess vegna er harla ólíklegt að menn komi með hinar fullkomnu leiðir og lausnir strax. Hins vegar er augljóst í mínum huga að þetta á að geta flýtt mjög mikið fyrir allra handa vinnu ef við erum að tala um ráðuneyti og stofnanir. Sömuleiðis, ef rétt er á málum haldið, á þetta að auðvelda almenningi að nýta þjónustuna og hún á að verða betri og skilvirkari

Eins og kemur fram í þessari könnun eru ríkisaðilar farnir að nýta sér þetta en ég geri ráð fyrir því að allir stígi varlega til jarðar og reyni að gera þetta með þeim hætti að það verði lítil áhætta tekin. Síðan er eitt ráðuneyti, háskólaráðuneytið, sem er með stefnumótun á þessu sviði. Við í mínu ráðuneyti tökum þátt í öllu þessu samstarfi sem ég held að sé skynsamlegt að vinna þannig að það sé ekki hver og einn að vinna þetta í sínu horni. Hins vegar hafa menn notað þetta nokkuð í mínu ráðuneyti en ég skal viðurkenna það, virðulegi forseti, að ég er ekki einn af þeim. Ég hef ekki komist þangað en aldrei að vita nema að manni takist að stíga þessi skref inn í nútíðina og nota gervigreind. En ég veit að hv. þm. Björn Leví Gunnarsson er í það minnsta kominn mun lengra heldur en sá sem hér stendur þegar að því kemur.