154. löggjafarþing — 87. fundur,  18. mars 2024.

gervigreind.

648. mál
[16:52]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir bæði fyrirspurnina og sömuleiðis framhaldsræðu. Ég held að það sé augljóst, af því að hv. þingmaður talaði um hvar þetta nýtist, að þegar þú ert með mjög mikið magn af gögnum, og þarf þó ekki að vera sérstaklega mikið magn, þá hjálpar þetta við að flokka og ná í þessar upplýsingar sem gætu fallið milli skips og bryggju. Við getum líka ímyndað okkur umsagnir um frumvarp í samráðsgátt og ýmislegt annað. Eins og ég nefndi þá hefur þessi tækni ekki farið fram hjá ráðuneytinu, hún mun ekki gera það og við viljum að sjálfsögðu nýta hana með ábyrgum og góðum hætti. En ég held hins vegar að mikilvægt sé að Stjórnarráðið vinni þetta saman og að þeirri bestu þekkingu sem í boði er sé miðlað til ríkisaðila. Aftur, þá veit ég um þessa galla sem ég nefndi, að þessi gervimenni eða hvað við viljum kalla þau, þau eru nú ekki mennsk, eru enn þá í mikilli þróun og það er ekki allt sem dugar eða reynist vel. Eitt af því sem var nefnt er að ef þú spyrð stærstu tæknirisa heims eins og Google hvor hafi valdið meiri skaða, Adolf Hitler eða Elon Musk, þá segir gervimaðurinn að ekki sé alveg hægt að svara því með skýrum hætti, ekki alveg hægt að meta það. Og nú geta menn haft allar skoðanir á Musk en ég held að það sé mjög hæpið að halda því fram að slíkar fullyrðingar gangi upp. Ekki það að þetta sé eitthvað sem mitt ráðuneyti hefur verið að vinna í, þetta er bara vegna þess að mér finnst þetta mjög forvitnilegt og hef aðeins, ásamt öðru, verið að kynna mér þessa hluti.

En stutta svarið við spurningu hv. þingmanns sem hann bar upp í upphafi er auðvitað að þetta er efni sem við horfum til og reynum að nýta með eins ábyrgum hætti og mögulegt er. Ég tel mjög mikilvægt að Stjórnarráðið geri það og ríkisaðilar en við þurfum líka að vera alveg meðvituð um að það eru áskoranir, eins og hv. þingmaður nefndi í fyrirspurn sinni. Það er mjög mikilvægt að þetta sé unnið með þeim hætti að þetta nýtist en það væri allra best að sleppa mistökunum.