154. löggjafarþing — 87. fundur,  18. mars 2024.

heilbrigðiseftirlit.

39. mál
[16:57]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég er sammála því sem kemur fram í máli hv. þm. Diljár Mistar Einarsdóttur sem er óþreytandi við að benda á að við þurfum að gera betur þegar kemur að skilvirkni í okkar þjóðfélagi. Eftirlitskerfin eru mjög mikilvæg og við sjáum það náttúrlega þegar koma núna upp þessi mál sem hafa verið mjög áberandi í fjölmiðlum sem snúa beint að matvælaöryggi að við viljum sjá til þess að eftirlitið sé til staðar og það virki og þeir sem ganga fram með óábyrgum hætti, við skulum bara segja að þeim sé refsað fyrir það.

Hins vegar er mjög mikilvægt að eftirlitið sé skilvirkt og það sé samræmt og það séu sömu reglur alls staðar á landinu. Einhver kynni að segja: Hvers konar fullyrðing er þetta? Það er svo fáránlegt að segja þetta, við erum 400.000 og auðvitað hljóta að vera sömu reglur alls staðar. Það er ekki. Þess vegna og af þessum ástæðum setti ég af stað hóp sem kom með skýrslu og hópurinn heitir starfshópur um fyrirkomulag eftirlits með hollustuháttum og mengunarvörnum og matvælum. Til að gera langa sögu stutta þá eru níu heilbrigðisumdæmi og síðan ertu með Matvælastofnun og Umhverfisstofnun sem koma að þessu eftirliti. Það segir sig sjálft að það er ekki mjög skilvirkt. Þessi hópur sem ég vísaði til kom með — undir forystu Ármanns Kr. Ólafssonar, fyrrverandi bæjarstjóra sem er búinn að vera sveitarstjórnarmaður og þingmaður og er með mikla reynslu á þessu sviði, og með honum var Gunnar Alexander Ólafsson sérfræðingur og Sigríður Gísladóttir dýralæknir, þetta var samstarf milli mín og matvælaráðherra — tillögur um þrjár sviðsmyndir: Í fyrsta lagi að heilbrigðiseftirlitssvæðum verði fækkað. Í öðru lagi að matvælaeftirlit verði hjá einni stofnun ásamt fækkun heilbrigðiseftirlitssvæða. Í þriðja lagi að allt eftirlit verði hjá stofnunum ríkisins. Ég hef kynnt þessar tillögur hjá öllum svæðisráðum sveitarfélaga um landið og sömuleiðis fyrir fulltrúum atvinnulífsins og ég held að það sé óhætt að segja að viðbrögðin hafi verið góð. Við erum að fara af stað í vinnu með þetta, þ.e. við og matvælaráðuneytið, með sveitarfélögunum, að skoða framhaldsvinnu í þessu sem mun alltaf taka tíma af því að þegar menn skoða niðurstöður skýrslunnar þá er mjög margt sem má betur fara. Því miður fyrir óþolinmóðan mann eins og mig þá verð ég að gangast við því að þetta mun taka nokkurn tíma því að það þurfa margir að koma að þessu; starfsfólk heilbrigðiseftirlita og sömuleiðis náttúrlega sveitarfélögin og atvinnulífið. Þetta er bara eins og þegar við fórum í sameiningu stofnana, ég er mjög ánægður með þá vinnu en það tók hins vegar nokkurn tíma að klára þá vinnu.

Við höfum gert annað til að einfalda regluverk á þessu sviði. Við höfum komið með skráningarreglugerðina sem þýðir einfaldlega það, og það tengist þessu, að um 50 atvinnugreinar, ef ég man rétt, þurfa ekki lengur að sækja um hjá mismunandi heilbrigðiseftirlitum heldur skrá sig á netinu og ef þær uppfylla skilyrði þurfa þær ekki að bíða í 6–8 vikur eftir mismunandi reglum heldur er það þannig að þær geta hafið starfsemi og síðan er eftirlitið fjórum dögum eftir að þær eru búnar að skrá sig og síðan er eftirlit með þeirri starfsemi.

Varðandi vaskana og ýmislegt annað þá snýr það að stórum hluta að hollustuháttareglugerð sem við höfum verið að vinna að endurskoðun á, m.a. með því markmiði að hafa hana skilvirkari og einfaldari. Síðan er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það eru miklar kvartanir um, og virðulegur forseti verður að fyrirgefa orðið, þetta er svolítið vaskablæti hjá okkur sem ég veit ekki til að sé annars staðar í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Ég hef alveg fengið reiðilesturinn frá atvinnurekendum, sérstaklega smærri atvinnurekendum, þegar þeir fara yfir þau mál. Öll þessi vinna hjá starfshópnum miðaði að því að tala við þá aðila sem að þessum málum koma. Það var talað við fjölmarga og það þarf að halda áfram með vinnuna og það er lögð mikil áhersla á að vera með samráð og samvinnu. Það er alveg ljóst að við getum ekki farið í neinar af þessum breytingum nema sveitarfélögin séu sátt við það. Annað er bara útilokað. Þess vegna verðum við að vinna eins hratt og örugglega og mögulegt er. En það mun taka tíma, því miður.