154. löggjafarþing — 87. fundur,  18. mars 2024.

heilbrigðiseftirlit.

39. mál
[17:06]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Diljá Mist Einarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og þeim sem tóku þátt í umræðunni. Það er auðvitað mikilvægt að gera skýrar kröfur til atvinnulífsins og hafa virkt eftirlit með því eins og hæstv. ráðherra benti á, en það verður auðvitað að gæta meðalhófs í því eins og öðru, eins og hæstv. ráðherra tók reyndar sömuleiðis undir.

Varðandi athugasemd hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar, eða móðgaða embættismannsins sem kom hingað upp í pontu áðan, [Hlátur í þingsal.] af því að hann spurði hvern væri eiginlega verið að vísa í hér þá fór ég ágætlega yfir það í framsögu minni. Ég er að vísa í samtöl við atvinnurekendur. Ég er að vísa í samtöl við atvinnurekendur sem kvarta sáran yfir regluverkinu og framkvæmdinni og leiðinlegt að það skyldi hafa móðgað svo sárlega hv. þingmann. (Gripið fram í.) En það er auðvitað alltaf gott að koma í þetta eftirlitsumdæmi, ég segi það ekki, en regluverkið og framkvæmdin á að vera samræmd og ekki til þess gerð að veikja samkeppnisstöðu atvinnurekenda, þannig að ég bara hvet hæstv. ráðherra til að halda áfram á sömu braut eins og hann lýsti þegar hann fór hér ágætlega yfir skýrsluna sem þegar hefur verið unnin og tillögurnar sem þar eru. Við verðum auðvitað að gæta okkar á því að kaffæra ekki atvinnurekendur, kaffæra þá í óhóflegum kröfum og eftirliti, (Gripið fram í.) gæta meðalhófs og ég heyri að við hv. þingmaður erum bara komin á sama mál hér að þessu loknu.