154. löggjafarþing — 87. fundur,  18. mars 2024.

heilbrigðiseftirlit.

39. mál
[17:08]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir þátttökuna í umræðunni, og þær eru allar góðar, og sérstaklega málshefjanda. En af því að hv. þm. Sigurjón Þórðarson, sem tekur þessu svolítið illa, spyr við hverja verið sé að tala þá er í þessari skýrslu farið yfir allar skýrslur sem hafa verið gerðar um þetta sem allar komast að sömu niðurstöðu. Það er greining KPMG 2020, úttekt Ríkisendurskoðunar á Matvælastofnun 2013, skýrsla starfshóps um fyrirkomulag heilbrigðiseftirlits 2015, skýrsla um verkefni Hollustuverndar ríkisins 2001 og matvælastefna til ársins 2030. Almenna reglan er sú að niðurstaðan er sú sama og reyndar er ESA líka með athugasemdir við þetta. Ég veit ekki af hverju hv. þingmaður tekur þessu svona persónulega illa. Það er ekki verið að ráðast á einn eða neinn, það er bara verið að vinna við það hér að reyna að gera hluti sem snúast ekki bara um samtöl við atvinnurekendur. Þess vegna er þessi vinna unnin, því það er ekki nóg. Það er almennt, heyrir maður, að menn vilja gera betur (Gripið fram í.) — gera betrumbætur og það er eitthvað sem við ætlum að gera.

Hv. þm. Orri Páll Jóhannsson spyr út í kosti og galla staðbundins eftirlits. Það er markmið hjá okkur að færa störfin þar sem verkefnin eru úti á landi. Það þarf að vinna á ákveðnum málum sem sneru að því, þess vegna er mjög mikið fámenni á stórum svæðum, hvaða flöt við finnum á því, en það þarf að gera það.

Af því að hv. þingmaður spurði um heildarendurskoðun þá er hún í gangi. Hún hefur gengið aðeins hægar en maður hefði viljað og stundum er það svo enda er mjög mikið að gera í ráðuneyti umhverfis-, orku- og loftslagsmála. En það breytir því ekki að við erum alveg meðvituð um að þetta er mjög mikilvægt og við munum klára það.