154. löggjafarþing — 87. fundur,  18. mars 2024.

náttúruminjaskrá.

716. mál
[17:10]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Frú forseti. Þó að náttúra Íslands samanstandi m.a. af jarðmyndunum á heimsklassa þá þýðir það ekki að við getum sætt okkur við að friðun náttúru ferðist á jarðsögulegum hraða en það er því miður raunin með það sem snýr að náttúruminjaskrá þessi árin. Náttúruverndaráætlun var síðast afgreidd hér á þingi árið 2010. Það eru 14 ár síðan og frá því að ný lög um náttúruvernd tóku gildi árið 2013 hefur framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár, eins og er skilgreint í þeim lögum, ekki fengið þá þinglegu meðferð sem samkvæmt lögunum á að gerast fimmta hvert ár. Við erum því í verulegri skuld gagnvart þeirri vernd sem á að spinna upp úr náttúruverndarlögunum.

Í svari við fyrirspurn minni á 152. löggjafarþingi kom fram að ráðherra ætlaði að leggja fram framkvæmdaáætlun á vetrinum 2022–2023 en sá vetur leið án þess að sú tillaga liti dagsins ljós. Nú er farið að birtast örlítið ljós við enda ganganna. Umhverfisstofnun er búin að setja í kynningarferli drög að framkvæmdaáætlun. En þá ber svo við að þar er bara að finna tíu svæði.

Svo að við förum aðeins yfir forsöguna aftur, forseti, þá lagði Náttúrufræðistofnun Íslands til að 112 svæði færu á framkvæmdaáætlun fyrir vistgerðir, fuglategundir og jarðminjar í apríl 2018. Það eru sex ár síðan það var. Í desember 2020 bætti stofnunin svo við 19 svæðum til verndar fossum og selum. Samtals eru þetta 131 tillaga en bara tíu þeirra rata í gegnum nálarauga Umhverfisstofnunar. Mér finnst þetta skrýtið og þætti ágætt ef hæstv. ráðherra gæti útskýrt fyrir okkur hvernig stendur á þessu. Það verður ekki séð í þessum tíu svæða flokki að þar sé að finna t.d. net verndarsvæða fyrir vistkerfi og fugla eins og kveðið er á um í lögunum að eigi að vera í þessari framkvæmdaáætlun.

Mig langar líka að spyrja hvernig þessi stutti listi Umhverfisstofnunar rímar við það yfirlýsta markmið ríkisstjórnarinnar að 30% landsvæðis verði friðlýst fyrir árið 2030.(Forseti hringir.) Staðan er 20% í dag, þessi 10% er ekki að finna í tillögum Umhverfisstofnunar.