154. löggjafarþing — 87. fundur,  18. mars 2024.

náttúruminjaskrá.

716. mál
[17:14]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Eins og hv. þingmaður bendir á þá svaraði ég því á þann veg að til stæði að leggja fram þingsályktunartillögu um náttúruminjaskrá á löggjafarþingi 2022–2023. Í svari mínu þá kom einnig fram að Umhverfisstofnun hefði, í kjölfar framlagningar Náttúrufræðistofnunar á tillögum að svæðum á framkvæmdaáætlun, verið falið að meta nauðsynlegar verndarráðstafanir á svæðinu og meta kostnað við þær. Sú vinna var í gangi þegar hv. þingmaður spurðist fyrir um málið á sínum tíma. Í þeirri vinnu kom í ljós að samráðsferli við landeigendur, sveitarfélög og aðra hagaðila var umfangsmeira en gert hafði verið ráð fyrir. Þetta samráð er mjög mikilvægt í ljósi þess um hvað málið snýst, þ.e. að setja svæði á framkvæmdaáætlun og friðlýsa eða friða í kjölfarið. Það er algjört forgangsmál að þessir aðilar séu vel upplýstir um mikilvægi þessara svæða, m.a. með tilliti til líffræðilegrar fjölbreytni sem er lykillinn í þessu, og hvað felst í því að svæði í þeirra eigu eða innan þeirra lögsögu fara á framkvæmdaáætlun.

Umhverfisstofnun hefur nýverið lokið samráðsfundi með landeigendum og sveitarfélögum vegna svæða sem ákveðið var að vinna áfram með í lögbundnu átta vikna kynningarferli tillögunnar í samræmi við 2. mgr. 36. gr. laga um náttúruvernd. Stofnunin hefur í kjölfarið auglýst tillögu að framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár í samræmi við ákvæði laganna og er frestur til að skila athugasemdum til 19. apríl. Kynninguna má finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar. Svæðin sem nú eru í opinberri kynningu eru svæði með hátt verndargildi. Þetta eru votlendissvæði, jarðhitasvæði, lindarsvæði og steingervingasvæði. Þetta eru búsvæði tegunda á válista, helst fugla, og, það sem mikilvægast er, þetta eru lykilsvæði fyrir líffræðilega fjölbreytni sem er útgangspunkturinn í þessari vinnu og hlýtur alltaf að vera forgangsmál. Ég vona að flestir gefi sér tíma til að kynna sér þessar tillögur betur nú þegar opinber kynning á þeim fer fram.