154. löggjafarþing — 87. fundur,  18. mars 2024.

náttúruminjaskrá.

716. mál
[17:19]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum, bæði málshefjanda og Orra Páli Jóhannssyni, fyrir að taka þátt í þessu. Ég kannast ekki við að það sé kyrrstaða í þessum málum. Reyndar held ég að því sé alveg öfugt farið. Ég held að það sé ekki nokkur leið að ná árangri í þessu nema með fólkinu, sveitarfélögunum og landeigendum. Ég vek athygli á því að hér hafa hópar unnið, bæði Vestmannaeyjahópur, Vestfjarðahópur, hópar í Dölum og á Langanesi, þar sem menn eru að skoða þessi mál sérstaklega, og það er lykilatriði að þeir aðilar sem eru í sveitarfélögunum og landeigendur hafi skilning á mikilvægi þessa. Magnið er ekki aðalatriðið, líffræðileg fjölbreytni er það sem skiptir mestu máli. Það er til lítils að fylla út einhverja prósentutölu ef þú ert að missa af því sem skiptir máli. Það verður bara að segjast eins og er, af því að það er ein ástæðan fyrir því að þetta hefur tekið lengri tíma, að það er mikil tortryggni í gangi þegar þú ferð af stað með vinnu eins og þessa. Menn geta velt því fyrir sér hvort menn hafi farið of geyst því að menn hafa verið í mikilli vörn, það hefur verið vandi, og talið að hér sé um einhverja hættulega hluti að ræða þrátt fyrir að viðkomandi einstaklingar séu miklir náttúruunnendur og náttúrubörn ef út í það er farið.

Það er verkefni að ná samvinnu og sátt og þú gerir það ekki með því að valta yfir fólk. Það er ekkert leyndarmál að við erum að taka langan tíma í samvinnu og samtal, það er bara ekkert leyndarmál, og þannig munum við vinna. Það getur vel verið að einhverjum finnist það vera hægagangur en það er enginn hægagangur, það er bara virðing við fólk. Þannig vinnum við í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu.