154. löggjafarþing — 87. fundur,  18. mars 2024.

sólmyrkvi.

603. mál
[17:22]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Frú forseti. Ég held að ég sé ekkert að ýkja þegar ég segi að það hafi reynst mikil áskorun að láta uppbyggingu á ferðamannastöðum haldast í hendur við álag af ferðamannastraumi á síðustu árum. Sú áskorun litast auðvitað af því að vöxtur í fjölda ferðamanna hefur verið meiri en gert var ráð fyrir. Á ákveðnum svæðum birtist hún kannski sérstaklega í því að það er stundum erfitt að spá fyrir um tískusveiflur hjá túristum. Þannig átti væntanlega enginn von á því að Fjaðrárgljúfur yrði allt í einu vinsælasti bletturinn á jarðkringlunni, fannst manni, á tímabili eftir að Justin Bieber tók þar upp tónlistarmyndband. Þegar það gerðist á einni nóttu voru engir innviðir til staðar til að taka við þeim bylgjum ferðamanna sem gengu yfir Fjaðrárglúfrin.

Hins vegar erum við svo heppin að stundum getum við skyggnst í kristalskúluna og vitum hvenær vinsældirnar ná toppi. Þannig er það að við vitum að síðsumars 2026 verður sprenging í ásókn að Látrabjargi. Sú sprenging er þegar farin að birtast í því að það eru mörg misseri síðan öll gisting á þessu svæði Vestfjarða seldist upp vegna þess að fólk vill komast á þann stað á jarðkringlunni þar sem útsýnið verður best til að sjá almyrkva á sólu.

Auðvitað er langt síðan við hefðum þurft að byggja betur upp á Látrabjargi og spurningin snýst í rauninni um það hvaða aðgerðir ráðherrann sér fyrir sér til að byggja upp aðstöðu til að taka á móti ferðamönnum við Látrabjarg. Tilefnið er hins vegar það að við vitum að ef það verður ekki gert fyrir sumarið 2026 þá stefnir í óefni. Tökum bara hliðstæðu. Fyrir nokkrum árum var almyrkvinn sjáanlegur frá Færeyjum. Það mættu 11.000 ferðamenn til Færeyja, bara til að sjá sólmyrkvann. Og þetta er sú tegund af ferðamönnum sem sættir sig ekki við annað en það allra besta. Og þó að við munum sjá almyrkvann héðan frá Reykjavík þá mun hans bara njóta í eina mínútu hér um slóðir en rúmar tvær mínútur vestur á Látrabjargi.

Spurningin er því: Mikil aðsókn er fyrirséð og það hefur lengi vantað aðstöðu. Til hvaða ráðstafana mun ráðherra grípa til að nýta tækifærið sem felst í því að taka vel á móti þessum stóra hópi sem við vitum að mun fara vestur á firði 12. ágúst 2026?